Mátti beita ofbeldi gegn innbrotsþjófi

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Breskur dómstóll hefur vísað frá máli fjölskyldu innbrotsþjófs sem legið hefur í dái í tvö ár eftir að íbúi húss sem hann braust inn í barði hann til óbóta.

Í desember 2013 braust maðurinn inn í íbúð í bænum Kent í Bretlandi. Íbúi hússins brást hinn versti við og barði innbrotsþjófinn þar til hann missti meðvitund. Lögreglan kom svo á svæðið og var haft samband við sjúkrabíl og maðurinn fluttur á spítala þar sem hann hefur legið í dái síðan. 

Fjölskylda innbrotsþjófsins fór í mál við íbúa hússins og vildi meina að ekki hafi um sjálfsvörn verið að ræða þar sem hlutfallslega of miklu ofbeldi var beitt. Dómstóllinn féllst hins vegar ekki á þau rök og sagði að það væri í lagi að beita hlutfallslega miklu ofbeldi við aðstæður sem þessar og að sú lagaregla sem heimilar fólki að beita ofbeldi í sjálfsvörn brjóti ekki í bága við 2. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um réttinn til lífs. 

„Íbúi má verja sjálfan sig með því afli sem hann telur nauðsynlegt hverju sinni,“ sagði dómsstjórinn við uppkvaðninguna.

Dómstóllinn tók fram að svo lengi sem íbúi beiti ekki ýktu ofbeldi og að ofbeldi sé ekki hluti af hefndaraðgerðum, sé í lagi að beita hlutfallslega miklu ofbeldi. 

Fjölskylda innbrotsþjófsins sagðist í samtali við The Telegraph ósátt við niðurstöðu dómsins og ætlar sér að öllum líkindum að áfrýja málinu. 

Fulltrúi breska dómsmálaráðuneytisins var hins vegar sáttur með niðurstöðuna. „Þetta mál sýnir okkur að þær breytingar sem við gerðum á hegningarlögunum árið 2013 samræmast mannréttindasáttmála Evrópu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert