Ekkert flogið til Brussel í dag

Flugvöllurinn í Brussel í morgun
Flugvöllurinn í Brussel í morgun AFP

Manns sem grunaður er um aðild að hryðjuverkunum í Brussel í gærmorgun er enn leitað en hann sást flýja flugstöðvarbygginguna eftir sjálfsvígsárásir þar. 35 létust í árásunum og þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Belgíu vegna árásar hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams. Fórnarlambanna verður minnst með mínútu þögn klukkan 11 að íslenskum tíma í dag.

Enn virðast nokkuð á reiki upplýsingar um hversu margir fórust í árásunum í gær. AFP fréttastofan talar um 35, Guardian 31 og BBC 34. Um 250 særðust í árásunum.

Talsmaður slökkviliðsins í Brussel, Pierre Meys, segir að 14 hið minnsta hafi látist í árásinni á flugvöllinn og borgarstjórinn í Brussel, Yvan Mayeur, segir að um 20 hafi látist í lestinni.

Fyrsta fórnarlambið sem borin voru kennsl á er Adelma Marina Tapia Ruiz, kona frá Perú sem hefur verið búsett í Brussel í sex ár. Hún var með fjölskyldu sinni á flugvellinum þegar sprengjurnar sprungu þar.

 Belgíska lögreglan birti mynd í gær af þremur mönnum sem grunaðir eru um hryðjuverkin á Zaventem flugvellinum um átta leytið í gærmorgun. Á myndinni sjást mennirnir á gangi með vagna með farangri en tveir þeirra eru taldir hafa sprengt sig upp og farangur sinn í flugstöðinni. Talið er að sá þriðji hafi forðað sér en ósprungið sprengjuvesti fannst í flugstöðinni í gær. 

Klukkutíma eftir árásirnar á flugvellinum, eða um níu leytið í gærmorgun, sprakk síðan þriðja sprengjan á Maelbeek neðanjarðarlestarstöðinni, skammt frá höfuðstöðvum Evrópusambandsins. Mikill fjöldi fólks var í lestinni á leið til vinnu þegar sprengjan sprakk. 

Brussel í dag
Brussel í dag AFP

VTM sjónvarpsstöðin í Brussel greinir frá því að leigubílstjóri sem ók þremenningunum á flugvöllinn í gær hafi getað veitt lögreglu upplýsingar um hús í Schaerbeek, norður af Brussel, og við húsleit þar í gærkvöldi hafi fundist efni til sprengigerðar og fáni íslamska ríkisins.

Mennirnir hafi pantað stóran leigubíl þangað fyrir þrjá farþega og fimm töskur. Þegar bíllinn kom á staðinn reyndist hann of lítill fyrir farangurinn og voru mennirnir þrír mjög ósáttir. Einhverjir fjölmiðlar greina frá því að ein taskan hafi ekki komist inn í leigubílinn og það hafi verið hún sem fannst í húsinu þegar lögreglan leitaði þar. Leigubílstjórinn á að hafa greint frá því að mennirnir hafi ekki viljað þiggja hans hjálp við að hlaða farangrinum í bílinn.

Ráðhúsið í San Francisco var lýst upp til stuðngins belgísku …
Ráðhúsið í San Francisco var lýst upp til stuðngins belgísku þjóðinni AFP



Lögregluþyrlur sveimuðu yfir borginni í nótt og að sögn saksóknara voru gerðar húsleitir á nokkrum stöðum í gær. Meðal annars fundust efni til sprengjugerðar og fáni íslamska ríkisins á einum stað.

Ekkert flug verður um Zaventem flugvöllinn í dag, samkvæmt upplýsingum frá flugvallaryfirvöldum. Jafnframt verða götur í nágrenni Maelbeek lestarstöðvarinnar áfram lokaðar og biðja samgönguyfirvöld borgarinnar íbúa um að haldi sig fjarri svæðinu.

Ýmsir velta fyrir sér getu álfunnar að koma í veg fyrir hryðjuverk þegar hryðjuverkamönnum tekst að gera árás á borgina sem er helsta vígi Evrópusambandsins aðeins nokkrum mánuðum efitr að 130 voru drepnir í hryðjuverkaárás í París. Eins hvernig belgísk yfirvöld hafa leyft öfgasamtökum og öfgasinnum að starfa óáreittir í kjölfar þess að Salah Abdeslam var handtekinn þar eftir að hafa verið á flótta í fjóra mánuði.

Forsætisráðherra Ástralíu, Malcolm Turnbull, er einnþeirra sem gagnrýnir öryggiseftirlit í Evrópu og segir að öryggismálum hafi verið ábótavant í Belgíu. Hann segir að Ástralir geti verið öryggir um að eftirliti, svo sem á landamærum, sé mun betra í Ástralíu en í Evrópu. Að sjálfsögðu sé ekki hægt að útiloka að hryðjuverk sem þessi eigi sér stað þar en það séu mun minni líkur á því.

Hermenn standa vörð skammt frá Zaventem flugvellinum
Hermenn standa vörð skammt frá Zaventem flugvellinum AFP

Alls staðar verður flaggað í hálfa stöng við opinberar byggingar í Belgíu í dag en í gærkvöldi safnaðist saman mikill fjöldi fólks á Place de la Bourse torginu þar sem fórnarlamba árásanna var minnst.

Leiðtogar ríkja heims hafa sent samúðaróskir til yfirvalda í Belgíu og leiðtogar ríkja Evrópu hafa látið í ljós reiði sína og sagt að þeir muni berjast gegn hyrðjuverkum með öllum tiltækjum ráðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert