Hægir á eldinum í Kanada

Flytja þurfti hátt í 100.000 manns frá Fort McMurray vegna …
Flytja þurfti hátt í 100.000 manns frá Fort McMurray vegna gríðarlegra skógarelda. AFP

Skógareldurinn sem hefur geisað undanfarna daga í kringum borgina Fort McMurray fer nú mun hægar yfir en áður, að sögn fylkisstjóra Alberta. Svo virðist sem að fyrra mat á því hversu mikið skóglendi hefur orðið eldinum að bráð hafi verið of hátt. Nú er talið að um 1.600 ferkílómetrar skógar hafi brunnið.

Embættismenn höfðu varað við því fyrr í dag að eldhafið gæti náð allt til nágrannahéraðsins Saskatchewan. Nú hefur aftur á móti hægt á framgangi eldsins og er hann um fjörutíu kílómetrum frá héraðsmörkunum.

Í fyrstu var talið að um 2.000 ferkílómetrar skóglendis hefði brunnið en Rachel Notley, fylkisstjóri Alberta, segir nú að það sé nær 1.600 ferkílómetrum.

Chad Morrison, yfirmaður viðbragðsteyma við skógareldum í Alberta, segir að með smá hjálp frá náttúrunni og aðstoð frá veðrinu hafi um 500 slökkviliðsmönnum tekist að hemja eldinn að mestu leyti við Fort McMurray með gríðarlegri vinnu.

Spáð er svalara veðri, rigningu og vestlægum vindi á morgun. Það ætti að halda logunum frá olíuvinnslusvæðum næstu dagana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert