Brunasárið blasir við úr geimnum

Eyðileggingin í Fort McMurray. Á myndinni sjást ský og reykur …
Eyðileggingin í Fort McMurray. Á myndinni sjást ský og reykur í hvítum lit, logandi eldar eru rauðir en brennd svæði eru brún. ljósmynd/NASA Earth Observatory

Alls er talið að rúmlega 2.500 ferkílómetrar lands og skógar hafi fuðrað upp í skógareldunum miklu við Fort McMurray í Kanada. Sárið sem eldarnir skilja eftir sig í umhverfinu er greinilegt á mynd sem tekin var af svæðinu með Landsat 8-gervitunglinu á braut um jörðu. 

Hátt í hundrað þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín í Fort McMurray vegna eldanna sem hafa nú geisað í á þriðju viku. Yfirvöld segja að margir mánuðir séu í að íbúar geti snúið aftur til borgarinnar en heimili margra þeirra hafa orðið eldi að bráð.

Operational Land Imager-myndavélinni á Landsat 8-gervitunglinu var beint að Alberta-fylki fyrir síðustu helgi en þá höfðu um 2.400 ferkílómetrar lands brunnið og sautján eldar loguðu enn. Mynd gervitunglsins, sem NASA og bandaríska jarðfræðistofnunin reka, sýnir glöggt eyðilegginguna. Hún er samsett úr myndum sem teknar voru í innrauðu, nærinnrauðu og grænu ljósi. Á myndinni sjást ský og reykur í hvítum lit, logandi eldar eru rauðir en brennd svæði eru brún.

Gríðarleg loftmengun fylgir eldunum en mikið magn koltvísýrings, brennisteinsdíoxíðs og rykagna sleppa út í andrúmsloftið frá þeim. Í frétt Space.com kemur fram að loftgæði í Alberta séu yfirleitt mæld á skala sem nær frá einum upp í tíu þar sem einn þýðir mestu loftgæði. Nú séu gæðin hins vegar í 38 í Fort McMurray.

Mynd Landsat 8 með skýringum.
Mynd Landsat 8 með skýringum. ljósmynd/NASA Earth Observatory eftir Joshua Stevens með gögnum Landsat.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert