Clinton eykur forskot sitt

Forsetaframbjóðandi bandaríska Demókrataflokksins, Hillary Clinton, mælist með sjö prósentustiga forskot á frambjóðanda repúblikana, Donald Trump, samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem gerð var fyrir sjónvarpsstöðina CBS og birt í dag.

Fram kemur í frétt AFP að forskot Clintons hafi aukist um fjögur prósentustig í kjölfar flokksþings demókrata á dögunum þar sem hún var formlega útnefnd forsetaefni Demókrataflokksins. Fylgi Clintons mælist nú 46% en fylgi Trumps 39%. Fylgi Trumps hafði áður aukist um tvö prósentustig í kjölfar flokksþings repúblikana og voru þau Clinton þá hnífjöfn samkvæmt fréttinni.

Samkvæmt könnuninni hefur helmingur skráðra kjósenda neikvæða afstöðu til Clintons en 36% jákvæða. Hins vegar hefur þeim fyrrnefndu fækkað um sex prósentutig og þeim síðarnefndu fjölgað um fimm prósentustig.

Tæpur þriðjungur kjósenda, eða 31%, hefur jákvæða afstöðu til Trumps sem er nokkurn veginn sama hlutfall og fyrir flokksþing repúblikana. Hins vegar hafa 52% neikvæða afstöðu til hans. Könnunin var gerð dagana 29.–31. júlí, svarendur voru 1.393 og skekkjumörk þrjú prósentustig.

Hillary Clinton.
Hillary Clinton. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert