Samþykktu réttarhöld yfir Rousseff

Öldungadeild brasilíska þingsins samþykkti í nótt ákæru á hendur Dilmu Rousseff, sem þurfti að láta af störfum tímabundið. Talið er að þetta geti þýtt að hún verði endanlega svipt forsetaembættinu.

59 greiddu atkvæði með því að réttað verði yfir Rousseff en 21 öldungadeildarþingmaður greiddi atkvæði gegn því. 

Rousseff var í maí ákærð til embættismissis fyrir að hagræða ríkisreikningum en hún neitar sök og segir að stjórn sín hafi beitt reikningsskilaaðferðum sem hafi lengi viðgengist í Brasilíu og geti ekki réttlætt málshöfðun til embættismissis. Margir fréttaskýrendur hafa tekið undir þetta og telja að flestir þingmannanna sem studdu málshöfðunina hafi í raun lagst gegn henni vegna mikillar óánægju almennings með efnahagsóstjórn hennar og spillingu sem hefur gegnsýrt stjórnkerfið.

Rousseff er sökuð um að hafa reynt að hindra rannsókn á spillingunni, meðal annars mútugreiðslum til stjórnmálamanna Verkamannaflokksins og fleiri flokka, þeirra á meðal þingmanna sem greiddu atkvæði gegn henni. Temer hefur ekki sætt rannsókn vegna spillingar en hermt er að vitni hafi sagt saksóknurum að hann sé viðriðinn mútugreiðslurnar. Nokkrir ráðherrar í stjórn hans eru á meðal þeirra sem spillingarrannsóknirnar beinast að.

Réttarhöldin munu hefjst í kringum 25. ágúst eða aðeins nokkrum dögum eftir að Ólympíuleikunum lýkur í Ríó.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert