120 látnir eftir jarðskjálftann á Ítalíu

Sjálfboðaliðar að störfum í bænum Amatrice sem eyðilagðist að stórum …
Sjálfboðaliðar að störfum í bænum Amatrice sem eyðilagðist að stórum hluta í jarðskjálftanum. Staðfest er að a.m.k. 86 manns fórust í Amatrice og nágrannabænum Accumoli. AFP

Tala þeirra sem fórust í öflugum jarðskjálfta á Ítalíu í nótt heldur áfram að hækka. Samkvæmt síðustu tölum fórust að minnsta kosti 120 manns í jarðskjálftanum og 368 eru særðir.

Vitað er til þess að 86 manns hafi farist í bæjunum Amatrice og Accumoli, en þrír fjórðu hlutar Amatrice, sem er sögufrægur bær, eyðilögðust í skjálftanum að sögn bæjarstjórans. Talið er að margir liggi enn grafnir í húsarústum beggja bæja.

Björgunarsveitir vinna nú hörðum höndum við leit þeirra sem enn eru grafnir í húsarústum. Mikil fagnaðarlæti brutust út í þorpinu Pescara del Tronto þegar átta ára stúlku var bjargað lifandi úr rústum í bænum.

„Þetta eru ekki lokatölur,“ sagði Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, á fundi með fréttamönnum nú fyrir skemmstu. Hann hafði áður lofað björgunarsveitarmenn og sjálfboðaliða fyrir starf sitt, en margir ruku til eftir að skjálftans varð vart í nótt og hófu að grafa fólk upp með berum höndum.

Renzi hét því að enginn myndi verða skilinn eftir.

Skjálftinn mældist 6,2 á stærð og fannst víða um Ítalíu, allt frá Bologna í norðri til Napolí í suðri, en upptök hans voru 10 kíló­metr­a suðaust­ur af Norcia. Ítalska eldfjalla- og jarðeðlisfræðistofnunin hafði um þrjúleytið í dag numið rúmlega 200 eftirskjálfta.

Smábæir og þorp í fjalllendi á mörkum héraðanna Umbriu, Lazio og Le Marche urðu verst út i skjálftunum.

Auk þeirra sem staðfest er að hafi farist í Amatrice og Accumoli er vitað að a.m.k. 34 fórust í Le Marche-héraðinu, m.a. í nágrannabæjunum Arquata del Tronto og Pescara del Tronto.

Erfitt aðgengi er að mörgum þessara litlu fjallabæja og er nú verið að koma upp tjaldbúðum fyrir þá sem þurfa á húsaskjóli að halda, en einnig er verið að koma upp neyðarskýlum í íþróttahúsum á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert