„Þetta eru hamfarir, hamfarir“

Slökkviliðsmenn aðstoða nunnur út úr rústunum.
Slökkviliðsmenn aðstoða nunnur út úr rústunum. AFP

„Allt er farið. Ég sé reykjarstróka. Þetta eru hamfarir, hamfarir,“ segir  Marco Rinaldi, bæjarstjóri í Ussita, einu af litlu fallegu fjallabæjunum sem urðu verst úti í skjálftanum í morgun.

Jarðskjálfti sem mældist 6,6 stig reið yfir Mið-Ítalíu snemma í morgun en ekki hafa enn borist fregnir af mannfalli. Tæplega 300 fórust í minni skjálfta á þessum slóðum í ágúst.

Skjálftinn, sem fannst allt frá Róm til Feneyja, reið yfir klukkan 6.40 að íslenskum tíma, klukkan 7.40 að staðartíma en tímabreyting tók gildi í Evrópu í nótt. Upptök hans voru í aðeins 6 km fjarlægð norður af bænum Norcia. Aðeins eru fjórir  dagar síðan tveir harðir skjálftar, 5,5 og 6,1 stig riðu yfir Mið-Ítalíu.

Fátt heyrðist annað en hundgá í  bæjunum Norcia, Castelsantagelo, Preci og Visso þegar skjálftinn reið yfir í morgun því íbúarnir flúðu að heiman í vikunni þegar skjálftarnir tveir riðu þá yfir.

Íbúarnir hafa fæstir snúið heim aftur og sofa í bílum fyrir utan bæina eða gista hjá ættingjum nær ströndinni. Rinaldi bæjarstjóri er einn þeirra sem ekki hafa snúið aftur heim til sín. „Ég var sofandi í bílnum mínum. Ég sá hryllinginn brjótast út,“ segir hann. 

Þremur hefur verið bjargað á lífi úr rústum húsa í bænum Marche í Tolentino, samkvæmt frétt La Stampa. Alls eru íbúar bæjarins um 20 þúsund talsins og vitað er að nokkur hús hrundu þar til grunna.

Almannavarnir Ítalíu fara nú á milli bæja og kanna ástand mála en á myndum Sky News á Ítalíu má sjá munka krjúpandi á hnjánum þar sem þeir biðja í þögulli bæn fyrir framan styttu heilags Benedikts af Norcia og allt í kring standa skelfingu lostnir íbúar. 

Kirkjan sjálf er hins vegar rústir einar eftir skjálftann í morgun. Fréttir hafa borist um að hús hafi hrunið víða. Talið er að heilagur Benedikt hafi fæðist í Norcia (Norsíu) í Úmbríu á fimmtu öld og er kirkjan, sem kennd er við hann, frá fimmtándu öld. Munkar úr Benedikt-reglunni gæta kirkjunnar en um 50 þúsund pílagrímar koma þangað árlega.

Uppfært klukkan 9

Fabrizio Curcio, yfirmaður almannavarna á Ítalíu, segir að allt bendi til þess að enginn hafi látist í skjálftanum í morgun. „Við erum að kanna ástandið. Nokkrir hafa meiðst en eins og staðan er núna er ekki vitað um mannskaða,“ sagði hann á blaðamannafundi í borginni Rieti í Lazio héraði.

Flestir íbúa bæjanna sem tveir skjálftar riðu yfir fyrir fjórum …
Flestir íbúa bæjanna sem tveir skjálftar riðu yfir fyrir fjórum dögum yfirgáfu heimili sín þá og hafa ekki snúið heim aftur. Það hefur sennilega orðið mörgum til lífs. AFP
Frá bænum Ussita eftir skjálftana í síðustu viku.
Frá bænum Ussita eftir skjálftana í síðustu viku. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert