Öflugur jarðskjálfti á Ítalíu

Hér má sjá myndir, fyrir og eftir skjálftann í morgun, …
Hér má sjá myndir, fyrir og eftir skjálftann í morgun, af dómkirkjunni í Norcia. Skjáskot/Twitter

Stór jarðskjálfti varð á Ítalíu í morgun. Hann fannst m.a. í Róm, Feneyjum og Napólí. Upptök hans voru í nágrenni Norcia, um 132 kílómetra norðaustur af Róm. Skjálftinn var 6,6 að stærð. Engar fréttir hafa enn borist af mannfalli en ljóst er að skemmdir eru gríðarlegar. Neðanjarðarlestarkerfi Rómar hefur verið lokað.

Margrét K. Sverrisdóttir, sem stödd er á flugvellinum í Róm, segist hafa fundið skjálftann greinilega. „Skilti sveifluðust til og öllum var brugðið, bæði starfsfólki og farþegum í flugstöðinni,“ segir Margrét um málið á Facebook-síðu mbl.is.

Skjálftinn í morgun er öflugri en sá sem varð 300 manns að bana á Ítalíu í ágúst.

Ítalska blaðið La Repubblica hefur eftir Mauro Falcucci, bæjarstjóra í Castelsantangelo, að um „hamfarir“ sé að ræða. „Ég er í Fano, þar sem ég bý. Þeir segja að byggingar hafi hrunið, að þetta séu hamfarir! Að jörðin hafi opnast, það sé reykur, hamfarir.“

Jarðskjálftinn varð kl. 6.40 að íslenskum tíma. Í síðustu viku urðu tveir stórir skjálftar sama svæði. Fjölmargir íbúar gistu í neyðarskýlum í kjölfar þeirra. Íbúar í fjórum bæjum, Norcia, Castelsantagelo, Preci og Visso, höfðu því flestir yfirgefið heimili sín. Þeir hafa síðan í kjölfar skjálftanna í síðustu viku sofið í bílum sínum eða flutt sig af skjálftasvæðinu. 

„Allt er hrunið. Ég sé reykjarsúlur, þetta eru hamfarir, hamfarir,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Marco Rinaldi, bæjarstjóra í Ussita. „Ég var sofandi í bíl mínum þegar fjandinn varð laus.“

Skjálftinn átti upptök sín skammt frá Norcia á Ítalíu.
Skjálftinn átti upptök sín skammt frá Norcia á Ítalíu.

Dómkirkja í bænum Norcia er sögð hafa hrunið í skjálftanum í morgun. 

„Það hrundi allt, það er ekki bær hér lengur,“ segir Aleandro Petrucci, bæjarstjóri í Arquata del Tronto. Hann segir að það séu fáir í bænum, vegna skjálftanna í síðustu viku. 

Hinn 24. ágúst létust tæplega 300 manns í stórum skjálfta á þessu sama svæði.

 


Fréttin verður uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert