Ótrúleg gæfa þrátt fyrir skemmdir

Þrátt fyrir gífurlegar skemmdir þá lést enginn í hörðum jarðskjálfta sem skók Mið-Ítalíu snemma í morgun. 20 slösuðust en enginn er í lífshættu. En ástandið er ömurlegt á skjálftasvæðinu enda fjórði stóri skjálftinn þarna á aðeins rúmum tveimur mánuðum.

Jarðskjálftinn í morgun mældist 6,6 stig og er harðasti skjálftinn sem hefur riðið yfir Ítalíu í áratugi. Upptök hans voru skammt frá þeim skjálfta sem kostaði tæplega 300 mannslíf í ágúst. 

Í síðustu viku riðu tveir harðir jarðskjálftar yfir á þessum slóðum og höfðu margir íbúar ekki snúið aftur heim. Talið er að það hafi bjargað mörgum mannslífum í morgun. Skjálftinn fannst allt frá Róm, þar sem neðanjarðarlestarkerfinu var lokað, til Feneyja í norðri. 

Yfirmaður almannavarna á Ítalíu, Fabrizio Curcio, segir að gríðarlegar skemmdir hafi orðið á sögufrægum byggingum sem afar kostnaðarsamt er að gera við. Eins er víða rafmagns- og vatnslaust.

Forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, heitir því að allt verði endurbyggt og segir að lausn verði fundin á fjármögnuninni.

„Við erum að fara í gegnum mjög erfitt tímabil,“ segir hann og bætir við að ekki megi auka á sárauka og álag fólks með uppgjöf. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert