3.000 bæir þurfa „skjálftaaðstoð“

Eyðileggingin er mikil víða.
Eyðileggingin er mikil víða. AFP

Hætta er á að um 3.000 sveitabæir á Ítalíu fari í eyði að óbreyttu, en þeir urðu fyrir miklum skemmdum í skjálftanum sem reið yfir nærri bænum Norcia á sunnudag. Óttast er að um 100.000 skepnur; kýr, svín og sauðfé, svelti ef engin aðstoð berst.

Skjálftinn var 6,6 stig og sá stærsti á svæðinu í 36 ár.

Landbúnaður er helsta atvinnugrein héraðsins og segja Coldiretti, helstu bændasamtök Ítalíu, aðstoðar þörf. Margir bændur hafa neitað að yfirgefa heimili sín þar sem þeir vilja ekki skilja búfénaðinn eftir en samkvæmt Coldiretti eiga þeir í erfiðleikum með að fá vatn og fæði fyrir skepnurnar.

Þá hafa vegaskemmdir hindrað flutning afurða frá bæjunum.

Samtökin hafa útvegað nokkrum bændum hjólhýsi til að dvelja í en þúsundir húsa eyðilögðust í skjálftanum og mörg þorp og bæir eru sagðir óöruggir að dvelja í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert