73 látnir eftir skjálftann á Ítalíu

Þrjú lík sem björgunarstarfsmenn fundu í Pescara del Tronto eftir …
Þrjú lík sem björgunarstarfsmenn fundu í Pescara del Tronto eftir jarðskjálftann. AFP

Að minnsta kosti 73 manneskjur hafa látið lífið eftir jarðskjálftann sem reið yfir Mið-Ítalíu í nótt. Tilkynnt var um mannfallið á blaðamannafundi í Róm. Björgunaraðgerðir eru í fullum gangi í fjallaþorpunum sem lentu illa í skjálftanum.

Tugir særðust eða eru enn fastir undir húsarústum. Skjálftinn er sá mannskæðasti á Ítalíu frá árinu 2009 þegar um 300 manns fórust í borginni L´Aguila og nágrenni hennar. 

Skjálftinn átti upptök sín á miklu jarðskjálftasvæði. Mögulegt er að hættulegir eftirskjálftar fylgi í kjölfarið, að mati vísindamanns.

Samkvæmt bandarísku jarðfræðistofnuninni átti skjálftinn upptök sín 10 kílómetrum suðaustur af Norcia og mældist hann 6,2 á á stærð á aðeins tíu kílómetra dýpi.

Slökkviliðsmenn leita að fólki í bænum Accumoli.
Slökkviliðsmenn leita að fólki í bænum Accumoli. AFP

„Jarðskjálftar eru algengir í þessum hluta Mið-Ítalíu,“ sagði Bill McGuire, prófessor við London-háskóla (UCL).

„Þrátt fyrir að héraðið sé ekki á flekaskilum safnast saman spenna víða sem leysist með reglulegum hætti úr læðingi með jarðskjálftum í kringum 6 af stærð,“ sagði McGuire.

„Hálft þorpið er horfið,“ sagði Sergio Pirozzi, bæjarstjóri í Amatrice.

Frans páfi lýsti hafði þetta að segja í ræðu sinni á Péturstorgi: „Það veldur mér miklu uppnámi að heyra bæjarstjórann í Amatrice segja að þorpið sitt sé ekki lengur til og að börn séu á meðal fórnarlambanna,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert