Mafían fái ekki að græða á skjálftanum

Ítölsk yfirvöld verða að koma í veg fyrir að mafían eigi þátt í þeirri uppbyggingu sem nú fer af stað í kjölfar jarðskjálftans á Ítalíu aðfaranótt miðvikudags. Þetta segir Franco Roberti, forstjóri þeirrar stofnunar sem fer fyrir baráttunni gegn ítölsku mafíunni.

Roberti segir að aðilar í skipulagðri glæpastarfsemi hefðu verið alræmdir fyrir að koma sér inn í verktakasamninga í kjölfar Irpinia-skjálftans nærri Napólí árið 1980. Fleiri en 2.400 létust í skjálftanum.

Hann segir að tryggja þurfi að þetta endurtaki sig ekki.

„Áhættan er fyrir hendi, það er tilgangslaust að reyna að horfa fram hjá því,“ sagði Roberti í samtali við dagblaðið La Repubblica. „Hættan er alltaf mikil. Uppbygging í kjölfar jarðskjálfta er feitur biti fyrir glæpasamtök og -nefndir.“

Roberti sagði einnig að óvönduð vinna af hálfu Camorra-mafíunnar í Napólí hefði átt þátt í dauðanum og eyðileggingunni sem fylgdi Irpinia-skjálftanum.

Því hefur einnig verið haldið fram að glæpasamtökin 'Ndrangheta hefðu átt aðild að verktakasamningum í kjölfar L'Aquila-skjálftans áirð 2009. Réttarhöld standa nú yfir gegn viðskiptajöfrinum Stefano Biasini og tveimur öðrum, sem eru sakaðir um að hafa útvegað mafíunni samninga.

Roberti sagði að menn hefðu lært ákveðnar lexíur eftir skjálftann 2009, þar sem 308 létu lífið, en hættan væri enn til staðar.

Ítarleg frétt Guardian.

Slökkviliðsmenn freista þess að bjarga munum úr kirkju sem gjöreyðilagðist …
Slökkviliðsmenn freista þess að bjarga munum úr kirkju sem gjöreyðilagðist í skjálftanum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert