Flýtir fyrir brotthvarfi Breta

Nigel Farage.
Nigel Farage. AFP

Skipun Guys Verhofstadt, leiðtoga frjálslyndra á Evrópuþinginu og fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu, sem fulltrúa þingsins í fyrirhuguðum viðræðum Evrópusambandsins við bresk stjórnvöld um brotthvarf Bretlands úr sambandinu mun flýta fyrir brotthvarfinu.

Þetta fullyrðir breski Evrópuþingmaðurinn Nigel Farage sem er fyrrverandi leiðtogi Breska sjálfstæðisflokksins. Haft er eftir honum á fréttavefnum Euobserver.com að ástæðan sé sú að Verhofstadt sé „öfgasinnaður stuðningsmaður evrópsks sambandsríkis. Jafnvel á mælikvarða Evrópuþingsins“ sem hati allt sem Bretland standi fyrir.

Tilkynnt var í gær að Verhofstadt hefði verið valinn til þess að koma fram fyrir hönd Evrópuþingsins í viðræðunum við Bretland. Náist samkomulag á milli Evrópusambandsins og breskra stjórnvalda um fyrirkomulag brotthvarfs Breta þarf það samþykki þingsins. Samkomulag er hins vegar ekki forsenda þess að Bretland segi skilið við sambandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert