Flugvélin varð eldsneytislaus

Flugvélin sem brotlenti skammt frá borginni Medellin.
Flugvélin sem brotlenti skammt frá borginni Medellin. AFP

Flugvélin sem hrapaði í Kólumbíu með brasilískt knattspyrnulið um borð varð eldsneytislaus, samkvæmt hljóðritun sem hefur verið lekið til fjölmiðla.

Í upptöku flugumferðarstjórnar heyrist flugstjórinn óska ítrekað eftir lendingarleyfi  vegna „algjörrar rafmagnsbilunar“ og skorts á eldsneyti, að því er BBC greindi frá.

Aðeins sex af þeim 77 sem voru um borð í vélinni komust lífs af.

Áður hafði verið talið að skortur á eldsneyti hefði átt þátt í slysinu. Rannsókn á tildrögum slyssins er í fullum gangi. 

AFP-fréttastofan greinir frá því að flugvélin hafi ekki stoppað til að fá eldsneyti eins og hún ætlaði að gera.

„Flugvélin átti að fá eldsneyti í Bogota,“ sagði Gustavo Vargas hjá flugfélaginu LAMIA. Þess í stað flaug vélin framhjá kólumbísku höfuðborginni í átt að Medellín. Slysið varð í fjalllendi fyrir utan borgina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert