Segja flugfélagið bera ábyrgð á flugslysinu

Vélin hrapaði í fjallshlíðum í nágrenni borgarinnar Medellin í Kólumbíu …
Vélin hrapaði í fjallshlíðum í nágrenni borgarinnar Medellin í Kólumbíu eftir að hafa orðið eldsneytislaus. AFP

Bólivíska flugfélagið LaMia ber fulla ábyrgð á flugslysinu sem varð þegar vél flugfélagsins hrapaði í Kólumbíu með þeim afleiðingum að 71 fórust, þar á meðal flestir leikmenn brasilíska knattspyrnuliðsins Chapecoense.

„Niðurstöður rannsóknarinnar eru afgerandi. Flugmaðurinn og flugfélagið bera ábyrgð á slysinu,“ sagði Milton Claros samgöngumálaráðherra Bólivíu á fundi með fréttamönnum í dag.

Flugvélin hrapaði í fjallshlíðum í nágrenni borgarinnar Medellin í Kólumbíu í lok síðasta mánaðar. Upptökur af samtali flugmannsins við flugstjórnarturn Medellinn hafa verið birtar, en þar segir hann vélina vera eldsneytislausa. Sex manns lifðu flugslysið af.

Rannsókn á tildrögum slysins er enn í gangi, en rannsóknarnefnd flugslysa í Kólumbíu hefur sagt alþjóðareglur um eldsneytisforða hafa verið hunsaðar.

Stjórnvöld í Bólivíu hafa afturkallað rekstrarleyfi flugfélagsins og þá hafa forstjóri LaMia og sonur hans, sem starfar fyrir flugstjórnaryfirvöld í Bólivíu, verið handteknir vegna málsins.

Claros sagði að verið væri að undirbúa ákæru og refsiaðgerðir gegn Celiu Castedo, einum yfirmanni flugvallararins, og aðrir yfirmenn loftferðareftirlits muni einnig sæta refsiaðgerðum.  

Castedo, flúði til Brasilíu eftir flugslysið og sagðist hafa sætt ofsóknum í kjölfar þess. Hún ber að sögn Claros „beina ábyrgð“ á flugslysinu fyrir að heimila vélinni að taka á loft og fyrir að tilkynna yfirmönnum sínum um vanda vélarinnar með tölvupósti, degi eftir slysið.

Lögmaður aðstoðarflugmanns flugvélarinnar sagði í síðustu viku að flugmaðurinn, Miguel Quiroga, hefði ekki lokið tilskildum fjölda æfingatíma til að mega stýra farþegavél.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert