12 ára reyndi að sprengja upp jólamarkað

Vegfarandi gengur fram hjá jólamarkaðinum í Ludwigshafen. Drengurinn skildi eftir …
Vegfarandi gengur fram hjá jólamarkaðinum í Ludwigshafen. Drengurinn skildi eftir heimatilbúna naglasprengju á markaðinum, en sprengibúnaðurinn virkaði ekki. AFP

12 ára gamall drengur reyndi að sprengja upp jólamarkað í þýsku borginni Ludwigshafen. Drengurinn skildi bakpoka með sprengiefnum eftir á markaðinum í nóvember, en sprengjan sprakk ekki. Nokkrum dögum síðar kom hann sprengju fyrir í nágrenni ráðhúss borgarinnar. Vegfarandi sá hins vegar til hans og lét lögreglu vita og tókst þannig að koma í veg fyrir slys á fólki.

Drengurinn er fæddur í Þýskalandi, en á íraska foreldra. Fréttavefur BBC segir að talið sé að drengurinn hafi nýlega gengið til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams og hafði tímaritið Focus eftir heimildamönnum innan dómskerfisins að drengurinn hafi verið að fylgja fyrirmælum frá óþekktum einstaklingi innan hryðjuverkasamtakanna.

Embætti ríkissaksóknara þýska sambandslýðveldisins neitaði að tjá sig um möguleg tengsl við Ríki íslams, en staðfesti að málið væri í rannsókn.

BBC hefur eftir saksóknaranum, Hubert Ströber, að drengurinn hafi skilið eftir bakpoka með heimatilbúinni naglasprengju á jólamarkaðinum í Ludwigshafen 26. nóvember, en að sprengibúnaðurinn hafi ekki virkað.

Drengurinn kom svo annarri sprengju fyrir í nágrenni ráðhúss borgarinnar 5. desember, en til hans sást og var sprengjan gerð óvirk af sprengjusérfræðingum.

Ekki stendur til að ákæra drenginn formlega þar sem hann hefur ekki náð sakhæfisaldri.

Þýska lögreglan handtók þá tvo drengi, 15 og 17 ára, síðasta fimmtudag og eru þeir grunaðir um að hafa skipulagt hryðjuverkaárás á opinberar stofnanir í Aschaffenburg  í norðvesturhluta Bæjaralands. Fann lögregla bæði fána Ríkis íslams og áróðursgögn heima hjá drengjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert