Landtökubyggðum gæti fjölgað mjög

Ísraelskir landtökumenn.
Ísraelskir landtökumenn. AFP

Ísraelsk yfirvöld gætu flýtt leyfum fyrir þúsundir húsa í landtökubyggðum á hersetnum svæðum í Austur-Jerúsalem þrátt fyrir ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að bundinn verði endi á landtökuna. Innlimun Austur-Jerúsalem er ekki viðurkennd af alþjóðasamfélaginu.

Meir Turjeman, formaður skipulagsnefndar Jerúsalemborgar og varaborgarstjóri, hefur talað um að flýta áætlunum um 5.600 byggingar í landtökubyggðum sem eru á fyrstu stigum skipulagsferlisins. Nefndin fjallar á morgun um byggingarleyfi fyrir 618 hús í austurhlutanum sem er að mestu leyti yfirráðasvæði Palestínumanna.

Turjeman segir við AFP-fréttastofuna að ekki standi til að taka leyfin af dagskrá nefndarinnar eftir ályktun öryggisráðsins á Þorláksmessu. Leyfin voru á dagskrá nefndarinnar fyrir ályktunina. Fulltrúi Bandaríkjanna sat hjá við atkvæðagreiðsluna sem gerði öðrum ríkjum sem eiga aðild að ráðinu kleift að samþykkja fordæmingu á landtöku Ísraelsmanna í fyrsta skipti frá 1979.

Landtökubyggðirnar hafa skotið upp kollinum á yfirráðasvæðum Palestínumanna og eru taldar brot á alþjóðalögum. Þær geti einnig ógnað möguleikanum á tveggja ríka lausn á átökum Ísraela og Palestínumanna.

Um 430.000 ísraelskir landtökumenn búa nú á Vesturbakkanum og 200.000 til viðbótar á hernumdu svæði í Austur-Jerúsalem sem Palestínumenn telja höfuðborg framtíðarríks síns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert