„Svarið er nei“

Franski forsetaframboðandinn Francois Fillon segir engan geta stoppað hann frá því að bjóða sig fram til forseta landsins, þrátt fyrir að flokksmenn hans úr franska Repúblikanaflokkinum hafi kallað eftir því að hann dragi framboðið til baka við vegna fjársvikahneykslis.

Fjársvikin tengjast þingstörfum Fillons en ádeiliritið Le Canard Enchaîné birti frétt um að fjölskylda hans hefði þegið laun hjá franska ríkinu án þess að hafa unnið til þeirra.

Penelope Fillon, eiginkona forsetaframbjóðandans, hefur sagt að launin hafi hún þegið fyrir að sinna störfum fyrir eiginmann sinn þegar hann starfaði sem þingmaður.

„Enginn getur í dag komið í veg fyrir að ég verði frambjóðandi,“ sagði Francois Fillon í sjónvarpsviðtali í dag en þar sagði hann einnig að ásakanirnar væru runnar af pólitískum rótum.

 „Að sjálfsögðu er ætlunin að ég hætti sem frambjóðandi.“

Hann hefur þó neitað að það muni takast en í viðtalinu sagði hann meðal annars „svarið er nei“ þegar hann var spurður hvort hann myndi verða að óskum flokksmanna hans um að draga framboðið til baka.

Í sjónvarpsviðtali í dag sagðist Francois Fillon ekki ætla að …
Í sjónvarpsviðtali í dag sagðist Francois Fillon ekki ætla að láta undan þrýstingi flokksmanna sinna um að hann dragi framboð sitt til forseta til baka. Mynd/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert