Leggja fram ný sönnunargögn í dag

Foreldrar Charlie Gard. Gard er 11 mánaða gamall og háður …
Foreldrar Charlie Gard. Gard er 11 mánaða gamall og háður öndunarvél. AFP

Foreldrar Charlie Gard, sem verður tekinn úr öndunarvél að óbreyttu, munu mæta fyrir breskan dómstól í dag og leggja fram ný sönnunargögn til stuðnings kröfu sinni um að fá að ferðast til Bandaríkjanna með drenginn og láta hann gangast undir tilraunameðferð.

Great Ormond Street-sjúkrahúsið, þar sem Charlie dvelur nú, biðlaði til dómstólsins um að úrskurða um næstu skref í kjölfar afskipta Frans páfa og Donald Trump Bandaríkjaforseta af málinu.

Breskir dómstólar og Mannréttindadómstóll Evrópu hafa hingað til úrskurðað gegn foreldrum Charlie og tekið undir með læknum drengsins, sem segja ekkert bíða hans nema þjáningar.

Hann eigi sér enga batavon.

Fyrr í vikunni afhentu foreldrar Charlie sjúkrahúsinu undirskriftalista þar sem þess er krafist að þau fái að fara með hann til Bandaríkjanna. 350.000 manns skrifuðu undir.

Læknar hafa hins vegar staðið fast á því að engin meðferð sé til við erfðasjúkdómnum sem hrjáir Charlie. Þeir segja heilaskemmdir drengsins verulegar og ólæknanlegar.

Málið vakti heimsathygli í síðustu viku þegar Frans páfi lýsti yfir stuðningi við foreldra Charlie og þá hefur Bambino Gesu, sjúkrahús á vegum Vatíkansins, boðist til að taka drenginn til meðferðar.

Trump Bandaríkjaforseti tjáði sig einnig um málið í síðustu viku og sagði þarlend yfirvöld reiðubúin til að aðstoða.

Charlie Gard.
Charlie Gard.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert