Fyrsti dómur af mörgum

Rana Plaza var á átta hæðum og var byggingin illa …
Rana Plaza var á átta hæðum og var byggingin illa farin og aðbúnaður starfsfólks lélegur. AFP

Eigandi fataverksmiðjunnar Rana Plaza var í morgun dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir spillingu. Þetta er fyrsti dómurinn af mörgum en 1.138 manns létust þegar verksmiðjan hrundi til grunna í útjaðri Dhaka, höfuðborgar Bangladess, árið 2013.

„Þetta er í fyrsta skipti sem hann er dæmdur og fangelsaður,“ sagði saksóknari í málinu, Salahuddin Eskander, við fréttamann AFP. Vísar hann þar til eigandans, Sohel Rana.

Hrun verk­smiðjunn­ar og mann­fallið sem því fylgdi er eitt mesta slys iðnaðar­sög­unn­ar. Um 2.000 manns slösuðust.

Slysið vakti gríðarlega at­hygli víða um heim og var aðbúnaður verka­fólks­ins gangrýnd­ur harðlega. Þá vakti harm­leik­ur­inn ekki síst at­hygli á því að stór og þekkt tísku­merki létu fram­leiða varn­ing sinn í verk­smiðjunni. 

Dóm­stóll í Bangla­dess komst að þeirri niður­stöðu í fyrra að Rana og fjöru­tíu til viðbót­ar yrðu ákærðir fyr­ir morð. Hóp­ur­inn er sakaður um að hafa falsað vott­orð um að verk­smiðju­hús­næðið væri ör­uggt.

Þúsund­ir verka­manna voru neydd­ar til að fara inn í bygg­ing­una við upp­haf vakt­ar sinn­ar þrátt fyr­ir að marg­ir þeirra hefðu bent á að sprung­ur væru komn­ar í bygg­ing­una. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert