Verður áfram hægristjórn í Noregi?

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. Ljósmynd/Norden.org – Magnus Fröderberg

Hugsanlegt er að áfram verði borgaraleg stjórn í Noregi eftir þingkosningarnar 11. september ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar fyrir norska ríkisútvarpið NRK. Núverandi ríkisstjórn er minnihlutastjórn Hægriflokksins og Framfaraflokksins sem nýtur stuðnings frjálslynda flokksins Venstre og Kristlega þjóðarflokksins.

Fram kemur í frétt NRK að samanlagt fái flokkarnir fjórir, bláa blokkin svokallaða, samanlagt 50% fylgi fari kosningarnar í samræmi við könnunina. Rauða blokkin, Verkamannaflokkurinn, Sósíalíski vinstriflokkurinn og Miðflokkurinn, fengi hins vegar samtals rúmlega 41%. Jafnvel þótt Umhverfisflokknum sé bætt við færi fylgið aðeins í 45,3.

Til þessa hefur flest virst benda til þess að rauða blokkin tæki við völdum í Noregi eftir kosningarnar en miðað við skoðanakannanir hefur dregið úr líkunum á því eftir því sem nær hefur dregið kosningunum. Samkvæmt könnun NRK hefur Hægriflokkurinn meira fylgi en Verkamannaflokkurinn sem hefur leitt í könnunum til þessa.

Viðrar hugmyndir um minnihlutastjórn

Munurinn á flokkunum tveimur, sem sögulega hafa verið turnarnir tveir í norskum stjórnmálum, er hins vegar innan skekkjumarka. Hægriflokkurinn mælist með 25,7% en Verkamannaflokkurinn 24,4%. Framfaraflokkurinn er þriðji stærsti flokkurinn með 15% og Miðflokkurinn fjórði með 10,6%. 

Fylgi Verkamannaflokksins hefur lækkað mikið undanfarnar vikur á meðan staða Hægriflokksins hefur styrkst. Leiðtogi Verkamannaflokksins, Jonas Gahr Støre, hefur í kjölfarið viðrað þá hugmynd að flokkurinn myndi einn minnihlutastjórn til þess að geta sótt stuðning til fleiri flokka en þeirra sem eru í rauðu blokkinni.

Verði Hægriflokkurinn stærsti flokkur Noregs eftir þingkosningarnar verður það í fyrsta sinn í næstum öld sem það gerist. Það gerðist síðast árið 1924. Frá árinu 1927 hefur Verkamannaflokkurinn hins vegar vermt þá stöðu.

Jonas Gahr Støre, leiðtogi norska Verkamannaflokksins.
Jonas Gahr Støre, leiðtogi norska Verkamannaflokksins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka