Ætla að dreifa bóluefni fyrir kosningar

Anthony Fauci, helsti sérfræðingur Bandaríkjanna í sóttvarnamálum.
Anthony Fauci, helsti sérfræðingur Bandaríkjanna í sóttvarnamálum. AFP

Áætlanir sem gera ráð fyrir því að ákveðnir hópar í Bandaríkjunum verði bólusettir í byrjun nóvember, fáeinum dögum fyrir forsetakosningar þar í landi, hafa valdið áhyggjum. 

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hefur upplýst yfirmenn heilbrigðismála í öllum fimmtíu ríkjum vestanhafs að vera viðbúnir dreifingu bóluefnis 1. nóvember. 

Samkvæmt BBC stendur til að dreifa tveimur óþekktum bóluefnum og eiga heilbrigðisstarfsmenn, eldri borgarar og aðrir viðkvæmir hópar að vera í forgangi. 

Anthony Fauci, helsti sérfræðingur Bandaríkjanna í sóttvarnamálum, hefur gefið í skyn að bóluefni gæti orðið fáanlegt áður en klínískum prófunum lýkur, en aðrir sérfræðingar óttast að stjórnmál búi að baki tilkynningu Sóttvarnastofnunarinnar. 

„Þessi tímalína [...] hún veldur miklum áhyggjum um að verið sé að stjórnmálavæða lýðheilsu fólks og að öryggis sé mögulega ekki gætt. Það er erfitt að horfa á þetta sem eitthvað annað en bóluefni fyrir kosningarnar,“ segir Saskia Popescu, smitsjúkdómalæknir í Arizona-ríki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert