Yfirfullar gjörgæslur og smitmet

Ekki verður heimilt að njóta jólaljósanna í París útivið frá …
Ekki verður heimilt að njóta jólaljósanna í París útivið frá klukkan 20 til klukkan 6 að morgni þangað til á næsta ári. AFP

Hertar sóttvarnareglur taka gildi í nokkrum ríkjum Evrópu í dag og gilda þær fram á næsta ár. Nýtt smitmet var sett í Bandaríkjunum í gær. 

Öllum verslunum nema matvöru- og lyfjaverslunum var lokað í Þýskalandi í dag og hið sama á við um skóla landsins. Staðan er svipuð á Englandi en þar hafa reglur verið hertar til muna að nýju. Í Danmörku hefur verið ákveðið að framlengja gildistíma hertra reglna. Staðfest voru tæplega 23.500 ný smit í Þýskalandi í gær og 952 dauðsföll af völdum Covid-19. 

AFP

Í Þýskalandi verður bönkum heimilt að hafa opið en veitingastaðir, barir og afþreying af öllu tagi er lokuð. Hárgreiðslustofur eru lokaðar og eins er bannað að drekka áfengi á almannafæri. 

Í gær var greint frá því að það styttist í bóluefni Moderna á sama tíma og stór hluti íbúa fátækra ríkja heims verður væntanlega ekki bólusettur fyrr en árið 2022. 

„Það er mjög gott að við erum að loka verslunum, þetta er gert fyrir heilsu okkar. Við getum ekki beðið þangað til allt hrinur,“ segir viðskiptavinur í verslun sem AFP-fréttastofan ræddi við í Berlín í gærkvöldi. Mjög margir voru í verslunum borgarinnar í gærkvöldi að reyna að ljúka jólagjafakaupum. 

Verslanir eru lokaðar í Amsterdam en sölubásar eru enn opnir …
Verslanir eru lokaðar í Amsterdam en sölubásar eru enn opnir á Albert Cuyp markaðnum. AFP

Miklar líkur eru á að Lyfjastofnun Evrópu veiti bóluefni Pfizer-BioNTech markaðsleyfi fyrir jól en þýsk yfirvöld hafa þrýst mjög á að það verði gert. Bretar eru þegar byrjaðir að bólusetja en það breytir því ekki að nýjum smitum fjölgar á ógnarhraða, ekki síst í stórborgum eins og London. Því hafa yfirvöld neyðst til þess að skella í lás á ýmsum stöðum. Svo sem börum, veitingastöðum og kaffihúsum. Aðeins er heimilt að selja mat til að taka með sér eða senda heim. 

AFP

Hollendingar, Frakkar og Tyrkir hafa einnig ákveðið að herða sóttvarnareglur og gilda þær fram yfir hátíðarnar. Í Frakklandi tók í gildi útgöngubann frá klukkan 20 á kvöldin og gildir það allar nætur til klukkan 6 að morgni þangað til á næsta ári. Aðeins verður veitt undantekning á aðfangadagskvöld en ekki á gamlárskvöld.

Vitað er að um 73 milljónir jarðarbúa hafa smitast af kórónuveirunni og af þeim eru yfir 1,6 milljónir látnar.  Í Bandaríkjunum voru staðfest 248 þúsund ný smit í gær og 2.706 dauðsföll. Á 10 af síðustu 13 dögum hafa smitin verið yfir 200 þúsund talsins í Bandaríkjunum. Jafnframt hafa aldrei verið jafn margir á sjúkrahúsi eða 113 þúsund. 

Útgöngubann frá klukkan 20 tók gildi í dag í Frakklandi.
Útgöngubann frá klukkan 20 tók gildi í dag í Frakklandi. AFP

Staðan er grafalvarleg í Kaliforníu þar sem innan við 100 rúm eru laus á gjörgæsludeildum Los Angeles en þar búa 10 milljónir manna. Yfirvöld í Kaliforníu hafa pantað mikið magn af líkpokum og eins hefur tugum flutningabíla með kæligáma verið komið fyrir við líkhús í ríkinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert