Malaví fargar AstraZeneca bóluefni

Heilbrigðisyfirvöld í Malaví hafa fargað tæplega 20 þúsund útrunnum skömmtum af bóluefni AstraZeneca gegn kórónuveirunni. Malaví er fyrsta landið í Afríku til að greina frá slíkum aðgerðum. Þetta kemur fram í frétt BBC.

18 milljónir manna búa í Malaví en 34.232 tilfelli kórónuveirunnar hafa greinst þar í landi og 1.153 látið lífið sökum hennar.

Malaví fékk rúmlega 100 þúsund skammta af bóluefni AstraZeneca frá Afríkusambandinu þann 26. mars og notaði um 80 prósent af þeim áður en þau runnu út þann 13. apríl. Í kjölfarið var ákveðið að farga þeim sem eftir urðu.

Fleiri lönd í Afríku farga AstraZeneca bóluefni

Malaví er ekki eina landið í Afríku sem býr yfir útrunnum bóluefnum við kórónuveirunni. Suður-Súdan hefur ákveðið að farga 59 þúsund skömmtum af AstraZeneca og fleiri lönd í Afríku sjá fram á að þurfa mögulega að gera slíkt hið sama á næstunni, samkvæmt annarri frétt breska ríkisútvarpsins.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafði í upphafi ráðlagt löndunum að geyma bóluefnin þar til hægt væri að ákvarða hvort þau væru enn nothæf.  Núna hefur stofnunin hins vegar breytt ráðleggingum sínum og sagt að farga eigi öllum útrunnum bóluefnum.

Seld áfram frá Suður-Afríku

AstraZeneca hefur allt að sex mánuða endingartíma í kæli. Skammtarnir sem um ræðir, um ein milljón talsins, voru upphaflega ætlaðir til notkunar í Suður-Afríku en yfirvöld þar stöðvuðu notkun þess þar vegna óvissu um virkni þess gegn suður-afríska afbrigðinu.

Skammtarnir voru þá seldir til Afríkusambandsins sem lét þá í hendur annarra landa í Afríku. Sum þeirra voru ekki meðvituð um endingartíma bóluefnisins en önnur hafa ekki haft burði til að nýta bóluefnið í tæka tíð.

Haft er eftir John Nkengasong, yfirmanni Sóttvarnastofnunar Afríku, að löndin þurfi aukinn stuðning til að fjölga heilbrigðisstarfsfólki og festa kaup á viðeigandi búnaði, svo sem hlífðarfatnaði.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert