Pútín viðurkennir sjálfstæði svæðanna

Pútín á fundi með öryggisráðinu í dag.
Pútín á fundi með öryggisráðinu í dag. AFP

Vladimír Pútín forseti Rússlands hefur skrifað undir viðurkenningu á sjálfstæði tveggja svæða aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

Aðskilnaðarsinnarnir hafa verið studdir leynt og ljóst af rússneskum stjórnvöldum frá því þau réðust þangað inn árið 2014.

Fyrr í dag óskuðu leiðtog­ar beggja svæðanna eft­ir sjálf­stæðisviður­kenn­ingu af hálfu Rúss­lands.

Ut­an­rík­is­mála­stjóri Evrópusam­bands­ins sagði einnig í dag að sambandið myndi setja af stað ferli til að beita refsiaðgerðum gegn Rúss­um, ef Pútín viðurkenndi sjálf­stæði svæðanna.

Johnson á blaðamannafundinum í kvöld.
Johnson á blaðamannafundinum í kvöld. AFP

Johnson svaraði í beinni útsendingu

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands var á miðjum blaðamannafundi um afléttingu takmarkana, í beinni sjónvarpsútsendingu, þegar tíðindin bárust af ákvörðun Pútíns.

Gerði hann hlé á svari sínu til blaðamanns og greindi viðstöddum frá því sem gerst hafði.

„Þetta er skýrt brot á alþjóðalögum,“ bætti hann við og benti á að í þessu fælist slæmur fyrirboði.

„Þetta er enn eitt merkið um að hlutirnir séu á leið í ranga átt í Úkraínu,“ sagði Johnson.

Bretland muni þó halda áfram að standa þétt við bakið á Úkraínumönnum, meðal annars með útflutningi hergagna í varnarskyni.

Fundaði með öryggisráðinu

Pútín fundaði í dag með öryggisráði sínu, utan hefðbund­inn­ar dag­skrár, en í ráðinu koma sam­an hæst settu emb­ætt­is­menn lands­ins í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um.

Héldu marg­ir þeirra inn­blásn­ar ræður á fund­in­um þar sem þeir lýstu yfir stuðningi við að sjálf­stæði svæðanna yrði viður­kennt.

„Ég hef heyrt skoðanir ykk­ar. Ákvörðunin verður tek­in í dag,“ sagði Pútín.

Öryggi, en ekki átök

Á fund­in­um sagði hann einnig að ógn vofði yfir Moskvu, sem fel­ist í spenn­unni á milli Rúss­lands og Vest­ur­landa vegna Úkraínu.

„Notk­un á Úkraínu, sem tóls til að eiga í ágrein­ingi við land okk­ar, skap­ar al­var­lega og mjög stóra ógn gagn­vart okk­ur,“ sagði for­set­inn og bætti við að í for­gangi í sín­um huga væri ör­yggi, en ekki átök.

Enn frem­ur sagði hann eng­ar horf­ur á því að hægt væri að fram­fylgja friðarsátt­mál­an­um sem gerður var árið 2015. Sátt­mál­an­um var ætlað að binda enda á átök úkraínska hers­ins og aðskilnaðarsinn­anna í aust­ur­hluta lands­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert