Tekur ákvörðun um sjálfstæðisviðurkenningu í dag

Ákvörðun verður tekin í dag, segir Pútín.
Ákvörðun verður tekin í dag, segir Pútín. AFP

Rússneski forsetinn Vladimír Pútín segist ætla að taka ákvörðun í dag, um hvort hann muni viðurkenna sjálfstæði tveggja svæða aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

Aðskilnaðarsinnarnir njóta leynt og ljóst stuðnings Rússa en fyrr í dag óskuðu leiðtogar beggja svæðanna eftir sjálfstæðisviðurkenningu af hálfu Rússlands.

Innblásnar ræður

Ummæli forsetans féllu í lok fundar hans með rúss­neska ör­ygg­is­ráðsins rétt í þessu. Fundurinn var haldinn utan hefðbundinnar dagskrár, en í öryggisráðinu koma sam­an hæst settu emb­ætt­is­menn lands­ins í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um.

Héldu margir þeirra innblásnar ræður á fundinum þar sem þeir lýstu yfir stuðningi við að sjálfstæði svæðanna yrði viðurkennt.

„Ég hef heyrt skoðanir ykkar. Ákvörðunin verður tekin í dag,“ sagði Pútín.

Alvarleg og stór ógn

Á fundinum sagði hann einnig að ógn vofði yfir Moskvu, sem fel­ist í spenn­unni á milli Rúss­lands og Vest­ur­landa vegna Úkraínu.

„Notk­un á Úkraínu, sem tóls til að eiga í ágrein­ingi við land okk­ar, skap­ar al­var­lega og mjög stóra ógn gagn­vart okk­ur,“ sagði for­set­inn og bætti við að í for­gangi í sín­um huga væri ör­yggi, en ekki átök.

Enn fremur sagði hann engar horfur á því að hægt væri að framfylgja friðarsáttmálanum sem gerður var árið 2015. Sátt­mál­an­um var ætlað að binda enda á átök úkraínska hers­ins og aðskilnaðarsinn­anna í aust­ur­hluta lands­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert