Segir ekki hægt að framfylgja friðarsáttmálanum

Pútín á fjarfundi í Moskvu í dag.
Pútín á fjarfundi í Moskvu í dag. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir engar horfur á því að hægt verði að leysa Úkraínudeiluna með friðarsamningunum sem samþykktir voru árið 2015 með stjórnvöldum Frakklands, Þýskalands og Úkraínu.

„Okkar skilningur er sá að það eru engar horfur“, sagði Pútín, á að framfylgja Minsk-sáttmálanum frá árinu 2015. Sáttmálanum var ætlað að binda enda á átök úkraínska hersins og aðskilnaðarsinnanna í austurhluta landsins.

Ummælin féllu á fundi rússneska öryggisráðsins rétt í þessu, sem ekki hafði verið á dagskrá, en þar koma saman hæst settu embættismenn landsins í varnar- og öryggismálum.

Hann sagði ógn vofa yfir Moskvu, sem felist í spennunni á milli Rússlands og Vesturlanda vegna Úkraínu.

„Notkun á Úkraínu, sem tóls til að eiga í ágreiningi við land okkar, skapar alvarlega og mjög stóra ógn gagnvart okkur,“ sagði forsetinn og bætti við að í forgangi í sínum huga væri öryggi, en ekki átök.

Íhuga að viðurkenna sjálfstæði svæðanna

Þá sagði hann stjórnvöld í Moskvu íhuga að viðurkenna sjálfstæði svæða aðskilnaðarsinna, sem studdir eru leynt og ljóst af Rússlandi, í Donetsk og Lugansk.

Leiðtogar þeirra báðu Pútín að viðurkenna sjálfstæði svæðanna fyrr í dag.

Rússneska þingið hefur sömuleiðis lagt það til við forsetann.

„Markmið okkar er að hlusta á kollega okkar og ákveða næstu skref í þessa átt, og hafa þá í huga beiðnir leiðtoga DNR og LNR um að viðurkenna sjálfstæði þeirra,“ sagði Pútín og notaðist við skammstafanir svæðanna beggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert