Skutu niður silfurgráan sívalning

John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í kvöld.
John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í kvöld. AFP

Dularfulla háloftahlutnum, sem bandarísk orrustuþota skaut niður undan strönd Alaska, hefur verið lýst sem „sívölum og silfurgráum“. Þá virðist ekki ljóst hvað knúði hlutinn áfram.

Þetta herma heimildir ABC-fréttastofunnar í Bandaríkjunum.

Flugmenn orrustuþotanna sem kallaðar voru út eru sagðir hafa náð myndum af hlutnum. Þeir munu einnig hafa sagt að engin merki væru um að hluturinn hefði nokkurt hreyfiafl.

Var hlutnum lýst sem „sívölum og silfurgráum“ og virtist svífa, að því er fréttastofan hefur eftir bandarískum embættismanni.

„Hann var ekki að fljúga“

Spurður hvort hluturinn líktist belgi, eða væri belgslegur, sagði embættismaðurinn: 

„Það eina sem ég er að segja er að hann var ekki að fljúga, með neins konar hreyfiafli, þannig ef það er belgslegt þá ... við bara erum ekki með nóg á þessum tímapunkti.“

John Kirby, talsmaður þjóðarör­ygg­is­ráðs Banda­ríkj­anna, greindi fyrst frá því að hluturinn hefði verið skotinn niður klukkan 19.30 að íslenskum tíma.

Þá hafði þota af gerðinni F-22 skotið hlutinn niður á þeirri klukkustund sem á undan var liðin.

Bandarísk herþota af tegund F-22 á flugi. Mynd úr safni.
Bandarísk herþota af tegund F-22 á flugi. Mynd úr safni. AFP

Herkúles sveimaði yfir

Þegar hefur verið greint frá því að hluturinn var nokk­urn veg­inn á stærð við lít­inn bíl. Reyn­ist það rétt er hann mun smærri en njósna­belg­ur­inn sem skot­inn var niður um síðustu helgi, en sá var á stærð við nokkr­ar rút­ur.

„Við vitum ekki hver á þennan hlut,“ sagði Kirby meðal annars. Gat hann einnig upplýst að bandarísk stjórnvöld hefðu vitað af hlutnum frá því á fimmtudagskvöld.

Svo virðist sem hluturinn hafi verið skotinn yfir norðurströnd Alaskaríkis, ef mið er tekið af því að Herkúles-herflugvél bandaríska flughersins sveimaði þar stöðugt yfir í kjölfarið.

Sjórinn þar er ísilagður og því ætti brakið að finnast auðveldar en ella.

Fljúgandi furðuhlutur?

Í ljósi lýsingarinnar á hlutnum hefur víða á samfélagsmiðlum verið rifjuð upp umfjöllun Reuters frá árinu 2021. Þar segir frá Alex Dietrich, fyrrverandi undirforingja í bandaríska sjóhernum, sem kvaðst hafa séð fljúgandi furðuhlut við störf sín.

Hún sagði þá að hún hefði engan áhuga á yfirnáttúrulegum hlutum og vildi alls ekki vera tengd við fljúgandi furðuhluti, en það sem hún sá hefur ekki verið útskýrt.

Í nóvember árið 2004 voru Dietrich og David Fravor, þáverandi flugstjóri hennar, beðin um að aðstoða annað herskip vegna hlutar sem hreyfðist á óvenjulegan hátt.

Sléttur, hvítur og sívalur hlutur

Hún sagði frá því að þau hefðu fyrst tekið eftir óvenjulegri „hreyfingu“ á yfirborði sjávar áður en þau Fravor sáu það sem þau höfðu lýst sem sléttum, hvítum og sívölum hlut sem líktist stórri myntu sem flaug á ógnarhraða yfir hafið.

Þegar Fravor í þotu sinni sneri sér að því að „ráðast á hlutinn, virtist hann bregðast við á undarlegan hátt sem við þekktum ekki og hann virtist skorta allan sýnilegan stýribúnað“, sagði Dietrich.

Sjá má myndskeið af því sem Dietrich og Fravor urðu vitni að þennan dag, sem kallað hefur verið Tic Tac-atvikið eftir samnefndum myntum vestanhafs.  Bandaríski sjóherinn hefur áður staðfest að myndböndin séu ósvikin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert