Ákærðir fyrir manndráp í Solna

Fjórir menn eru ákærðir fyrir manndráp í Solna, norður af …
Fjórir menn eru ákærðir fyrir manndráp í Solna, norður af Stokkhólmi, í fyrravor þar sem 35 ára gamall maður lést af skotsárum er hann hlaut úti á götu, skammt frá skóla þar sem börn voru að leik. AFP/Fredrik Persson

Fjórir sakborningar sæta nú ákæru í Héraðsdómi Solna í Svíþjóð fyrir mismikla aðild sína að skotárás í Hagalund þar í bænum í maílok í fyrra sem kostaði 35 ára gamlan mann lífið.

Solna er skammt norður af höfuðborginni Stokkhólmi og barst lögreglu þar tilkynning um skothvelli úti á götu síðdegis 30. maí. Er hún kom á vettvang voru þar tveir menn særðir og lést annar þeirra af sárum sínum um kvöldið en hinn lifði og er aðalákærði í málinu.

Beri öll merki aftöku

Kveður Josefine Dahlqvist saksóknari árásina hafa verið skipulagða og sprottna af átökum glæpagengja en sannað þykir að aðalákærði hafi tengsl við eitt þeirra gengja sem herjað hafa í Stokkhólmi og nágrannabyggðarlögum síðustu misseri með skotárásum og sprengjutilræðum.

Segir saksóknari árásina bera öll merki aftöku en að minnsta kosti einn meðákærðu veittist einnig að fórnarlambinu á vettvangi eftir því sem vitni greindu frá við rannsókn málsins.

Greindi eitt þeirra vitna, sem lögregla ræddi við eftir atburðinn, frá því að um tuttugu börn hefðu verið stödd úti við á skólalóð í nágrenninu þegar skotárásin átti sér stað en sjálft hefði vitnið verið á ferð með sínu eigin barni þegar það heyrði sjö eða átta skothvelli. „Og þeir hljómuðu ekki eins og þeir kæmu úr lítill byssu,“ sagði vitnið við skýrslutöku hjá lögreglu.

SVT

SVTII (frétt frá því í maí)

Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert