Nýr yfirmaður Svartahafsflota Rússa

Varnarmálaráðherrann Sergei Shoigu og Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafa skipað nýja …
Varnarmálaráðherrann Sergei Shoigu og Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafa skipað nýja yfirmenn innan flotans. AFP/Alexander Kazakov

Rússar tilkynntu í dag að búið væri að skipa nýjan yfirmann Svartahafsflota landsins. Skipun hans kemur í kjölfar fjölda árása Úkraínumanna á flotann.

Svartahafsflotinn hefur orðið fyrir miklu tjóni

Stjórnvöld í Kænugarði segjast hafa grandað um þriðjungi allra skipa Svartahafsflotans eftir innrás Rússa í Úkraínu fyrir rúmlega tveimur árum síðan. Þykir þetta niðurlægjandi fyrir hernaðarmátt Rússa þótt þeir hafi náð nýlega að sækja nokkuð fram á landi.

Varnarmálaráðherra Rússland, Sergei Shoigu, hefur tilkynnt að Rússlandsforseti, Vladimír Pútín, hafi skipað Sergei Pinchuk, varaaðmírál yfirmann Svartahafsflotans.

Þessi skipun kemur í kjölfar allsherjar uppstokkunar innan sjóhersins, sem hefur sömuleiðis fengið nýjan æðsta yfirmann, Alexander Moiseyev aðmírál.

Shoigu sendi frá sér skilaboð í myndbandi til nýju yfirmannanna í flotanum, þar sem hann sagði: „Í eina röndina óska ég ykkur til hamingju en í hina vona ég að þið skiljið þá gríðarlegu ábyrgð sem hvílir á ykkur og ég vona að þið valdið þeim verkefnum sem við munum leggja fyrir ykkur.“

Fyrir einhverjum vikum höfðu rússneskir bloggarar, sem margir hverjir hafa góð tengsl inn í hersveitir Rússlands, sagt frá því að fráfarandi yfirmanni Svartahafsflotans, Viktor Sokolov, hafi verið komið frá vegna ítrekaðra árása á skip hans.

Pinchuk, sem er 52 ára og á langan feril að baki í sjóhernum. Hann er fæddur í Sevastopol, heimhöfn Svartahafsflotans á Krím-skaga, sem Rússar tóku með valdið árið 2014.

Færa skipin til að forðast árásum

Myndir úr gervihnöttum staðfesta það að Rússar hafi fært skip sín austar á Svartahaf, í námunda við Novorossiysk, til að vernda þau frá árásum Úkraínumanna.

Nú síðast 24. mars sögðust Úkraínumenn hafa hæft tvö flugmóðurskip Rússa og samskiptamiðstöð í eldflaugaárás á Sevastopol. Stjórnvöld í Úkraínu segjast áður hafa hæft rússnesk skip á Svartahafi að næturlagi með því að notast við dróna, hlaðna sprengiefnum.

Mannabreytingarnar núna eru mesta uppstokkun innan herafla Rússa eftir að Sergei Surovkin var látinn víkja fyrir ári síðan. Hann hafði verið æðsti yfirmaður loft- og geimhers Rússa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert