400 ferkílómetra landsvæði á valdi Rússa

Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands.
Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands. AFP

Stjórnvöld í Rússlandi greina frá því að þau hafi á þessu ári náð um 400 ferkílómetra landsvæði á sitt vald í Úkraínu. 

Þetta er í fyrsta sinn í tæpt ár sem Rússar ná svo miklu landsvæði, en á sama tíma hafa yfirvöld í Úkraínu glímt við manneklu og skort á skotfærum vegna tafa á mikilvægri vestrænni aðstoð. 

Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, segir að alls hafi Rússar náð 403 ferkílómetra landsvæði. Hann vísar til landvinninga í héruðunum Donetsk, Kerson, Lúgansk og Saporísja. Um er að ræða svæði sem rússnesk stjórnvöld segjast hafa innlimað árið 2022 þrátt fyrir að hafa ekki náð þar fullri stjórn. 

Ráðherrann segir að rússneskar hersveitir haldi áfram að ýta Úkraínumönnum til vesturs. Þetta kom fram á fundi sem Shoigu átti með öðrum herforingjum, að því er kemur í tilkynningu sem varnarmálaráðuneytið hefur birt. 

Rússnesk kona virðir fyrir sér skemmdir í íbúð hennar í …
Rússnesk kona virðir fyrir sér skemmdir í íbúð hennar í Donetsk. Rússar halda því fram að Úkraínumenn beri ábyrgð á eyðileggingunni. AFP

Mikilvægur áfangi

Rússar náðu bænum Avdívka á sitt vald í febrúar, en bærinn er skammt frá Donetsk-borg sem Rússar ráða. Þetta er einn mikilvægasti hernaðarlegi áfangi Rússa í stríðinu frá því í maí í fyrra. 

Þá segir Shoigu að rússneskar hersveitir hafi náð fimm byggðarlögum á undanförnum mánuði. Fjórum í Donetsk og einu í Saporísja. 

Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW) heldur því fram að Rússar ráði yfir ríflega 100.000 ferkílómetra landsvæði í Úkraínu, sem er tæplega fimmtungur landsins. 

Hugveitan segir enn fremur, að Úkraínumenn standi frammi fyrir skorti á búnaði og vopnum til að verjast sókn Rússa. 

Bandaríkjaþing hefur undanfarið deilt um 60 milljarða dala aðgerðapakka til stuðnings Úkraínu og þá hefur tafist að senda skotfæri í stórskotaliðsvopn frá Evrópu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert