Bræddi Keikó með munnhörpunni

Astrid Morken spilar fyrir Keikó.
Astrid Morken spilar fyrir Keikó.

Átta ára norsk stúlka spilaði lag úr kvikmyndinni Frelsið Willy fyrir háhyrninginn Keikó í þrjá tíma í fyrradag og lék "leikarinn" á als oddi á meðan, en móðir stúlkunnar segist vera viss um að Keikó hafi þekkt lagið.

Astrid Morken er frá þorpinu Skaun og mikill aðdáandi Keikós, samkvæmt netútgáfu norska dagblaðsins VG. Þar kemur fram að þegar hún hafi heyrt að Keikó hefði synt frá Íslandi til Noregs og væri nú í Skálavíkurfirði hafi hún viljað sjá háhyrninginn. Haft er eftir Catharinu Morken, móður Astrid, að stúlkan hafi grátið þegar hún hafi séð Keikó í fyrsta sinn, en mæðgurnar hafa heimsótt dýrið þrisvar og í síðustu heimsókninni spilaði Astrid fyrir háhyrninginn lagið sem var spilað fyrir hann í fyrrnefndri kvikmynd. "Hann synti að henni, lyfti höfðinu, nikkaði til hennar og velti sér," er haft eftir móðurinni. "Við erum vissar um að Keikó þekkti lagið og hann hegðaði sér nákvæmlega eins og í kvikmyndinni."

Astrid þorði ekki að hætta að spila á munnhörpuna, hélt að Keikó myndi þá synda í burtu. "Þetta er besti dagur lífs míns," sagði hún, en þetta er eina lagið sem hún kann að spila og lærði það af kvikmyndinni, þótt aldrei hafi hvarflað að henni að hún ætti eftir að leika það fyrir Keikó.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert