Meirihluti segist sáttur við að Davíð Oddsson hætti stjórnmálaafskiptum

Í nýrri könnun IMG Gallup, þar sem fólk var spurt hvort það væri sátt við að Davíð Oddsson væri að hætta stjórnmálaafskiptum sögðust 72%þátttakenda sátt við það það. Einnig var spurt hvort fólk væri ánægt með nýjan seðlabankastjóra og svöruðu 46% því játandi.

Í tilkynningu frá IMG Gallup kemur fram, að rúmlega 43% sögðust mjög sátt og um 29% frekar sátt við að Davíð sé hættur, en tæplega 7% sögðust frekar ósátt og tæplega 5% mjög ósátt við ákvörðun hans. Tæplega 17% sögðust hvorki sátt né ósátt við að Davíð væri að hætta afskiptum af stjórnmálum.

Mikill munur er á viðhorfum fólks eftir stjórnmálaskoðunum. Um 84% fylgismanna Samfylkingarinnar og 80% stuðningsmanna Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs eru sátt við að Davíð Oddson er hættur stjórnmálaafskiptum. En um 71% framsóknamanna og 65% sjálfstæðismanna eru sátt við þessa ákvörðun Davíðs.

Rúmlega 22% eru mjög ánægð og tæplega 24% eru frekar ánægð með að Davíð Oddson verði nýr seðlabankastjóri, en um 13% eru frekar óánægð og rúmlega 20% eru mjög óánægð með að hann í stöðu seðlabankastjóra. Rösklega 20% segjast hvorki vera ánægð né óánægð með nýjan seðlabankastjóra.

Stuðningsfólk stjórnarflokkanna er mun ánægðara með nýjan seðlabankastjóra en þeir sem styðja Samfylkinguna eða Vinstrihreyfinguna-grænt framboð. Um 72% sjálfstæðismanna og 58% framsóknarmanna eru ánægð með nýjan seðlabankastjóra, en 33% stuðningsfólks Samfylkingarinnar og 21% Vinstri grænna taka í sama streng. Þá eru um 57% Vinstri-grænna, 52% stuðningsfólks Samfylkingarinnar, 19% framsóknarmanna og 16% sjálfstæðismanna óánægðir með nýjan Seðlabankastjóra.

Einnig er nokkur munur á ánægju karla og kvenna með nýjan seðlabankastjóra. Um 50% karla og 42% kvenna eru ánægð með Davíð í stöðu seðlabankastjóra og um þriðjungur karla og kvenna eru óánægður með ráðninguna.

Spurt var: Ertu sátt(ur) eða ósátt(ur) við að Davíð Oddsson sé hættur stjórnmálaafskiptum?
Ertu ánægð(ur) eða óánægð(ur) með nýjan seðlabankastjóra, Davíð Oddsson?

Hringt var í fólk dagana 7. til 20. september. Úrtakið var 1262 manns á aldrinum 18 til 75 ára. Úrtakið var valið með tilviljun úr þjóðskrá og var svarhlutfall um 62%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert