Eyfirðingar fagna ákvörðun um undirbúning álvers

Stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, AFE, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fagnað er ákvörðun Alcoa um að áfram verði markvisst unnið að byggingu álvers á Norðurlandi. Með tilkomu álvers við Húsavík styrkist ekki aðeins atvinnusvæðið í Þingeyjarsýslum heldur muni áhrifanna einnig gæta víða á Norðurlandi.

Stjórn félagsins segir mikilvægt að hvetja sveitarfélög á svæðinu til að huga sem fyrst að skipulagsmálum og öðrum þeim þáttum sem skipti máli á því svæði þar sem áhrifanna af framkvæmdunum mun gæta. Áætlað sé að íbúum á Norðurlandi fjölgi um 2000 vegna framkvæmdanna með tilheyrandi verulegri þörf fyrir íbúðabyggingar.

„Stjórn AFE leggur áherslu á að stjórnvöld komi nú þegar að uppbyggingu margra mikilvægra verkefna sem styrkt geta atvinnulíf og þjónustu á Eyjafjarðarsvæðinu. Í því sambandi má benda á gerð Vaðlaheiðarganga, sem er ein grundvallarforsenda fyrir tengingu atvinnusvæðanna í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Lenging flugbrautar Akureyrarflugvallar mun einnig hafa vaxandi þýðingu samhliða styrkingu svæðanna, sömuleiðis frekari uppbygging og efling Háskólans á Akureyri, matvælavinnsla, ferðaþjónusta og fleiri þættir. Á öllum þessum sviðum geta stjórnvöld með einum eða öðrum hætti stuðlað að frekari vexti með aðgerðum sínum," segir í ályktun AFE.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert