Hefði viljað takast á við Magnús sem jafningja

„Það voru mér mikil vonbrigði að frétta af afdráttarlausum stuðningi Guðjóns Arnars við Magnús Þór í embætti varaformanns Frjálslynda flokksins,“ segir Margrét Sverrisdóttir, sem í fyrradag tilkynnti að hún hygðist bjóða sig fram í embætti varaformanns flokksins.

„Þingflokkurinn kærir sig ekki um Margréti sem varaformann,“ segir Magnús Þór Hafsteinsson í Morgunblaðinu í dag.

Margrét segist hafa skynjað mikla ánægju meðal flokkssystkina sinna með framboð sitt og ljóst að margir hafi litið á framboð hennar sem sáttargjörð. „Nú er upplifun margra að það hafi verið slegið á útrétta sáttarhönd,“ segir Margrét og tekur fram að sér hefði þótt eðlilegra að Guðjón lýsti yfir hlutleysi sínu og leyfði flokksfélögum sjálfum að gera upp hug sinn í varaformannskjörinu.

„Þá hefðum við Magnús fengið að takast á sem jafningjar,“ segir Margrét og tekur fram að hún hafi ástæðu til að ætla að Magnús Þór hafi óttast að mæta sér á eigin verðleikum án fulltingis formanns.

Spurð hvort til greina komi að hún bjóði sig fram á móti Guðjóni til formanns flokksins segist Margrét ekki útiloka neitt á þessu stigi, en tekur fram að hún muni nota helgina til þess að íhuga sína stöðu og taka ákvörðun. „Því að blóðnætur eru bráðastar.“

Í samtali við Morgunblaðið segist Guðjón ekki kannast við að stefnt geti í klofning innan flokksins. „Yfirlýsing hans í dag getur einmitt leitt til klofnings í flokknum,“ segir Margrét. „Ég skil ekki að hann sjái það ekki sjálfur. Mér finnst skipstjórinn með framferði sínu ekki aðeins vera að rugga bátnum heldur nánast að hvolfa honum,“ segir hún. | 12

Í hnotskurn
» Guðjón Arnar segist styðja Magnús Þór sem varaformann Frjálslynda flokksins.
» Margrét Sverrisdóttir útilokar ekki formannsframboð.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert