Teknir með talsvert magn fíkniefna

mbl.is

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók þrjá karlmenn á tvítugsaldri í vesturhluta borgarinnar í gærkvöld en í vistaverum þeirra fannst talsvert af ætluðum fíkniefnum. M.a er talið að þetta séu 250 grömm af hassi, 60 grömm af maríjúana, 20 e-töflur og 20 grömm af kókaíni. Þremenningarnir voru að gera fíkniefnin tilbúin í neysluhæft form og í söluumbúðir þegar lögreglumenn komu að þeim.

Á staðnum fundust líka fjármunir, 160 þúsund krónur, sem voru haldlagðir. Grunur leikur á að peningarnir tengist fíkniefnasölu. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu lögreglunnar í nótt en yfirheyrslum er nú lokið og telst málið upplýst. Ein stúlka var sömuleiðis yfirheyrð í tengslum við málið. Þess má geta að fíkniefnadeild LRH hefur komið að 107 málum frá áramótum. Það er umtalsverð fjölgun sé miðað við sama tímabil í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert