Akureyrarbær framlengir rekstrarsamninga við KA og Þór

Akureyrarbær framlengdi í dag til fimm ára rekstrarsamninga sína við Knattspyrnufélag Akureyrar og Íþróttafélagið Þór. Meðal nýmæla er að félögin eiga kost á sérstakri „hvatagreiðslu“ sem nemur 4 milljónum króna á ári, takist þeim að halda rekstrinum hallalausum og innan rekstraráætlunar.

Í fréttatilkynningu kemur fram að til viðbótar núgildandi samningi frá 2002 og hvatagreiðslunum, mun Akureyrarbær styrkja KA og Þór með fernum hætti:

10 milljóna króna greiðsla við undirritun samnings. Fjárhæðinni skal að öllu leyti varið til að greiða niður skuldir félaganna.

Árlegur aukinn rekstrarstyrkur vegna reksturs skrifstofu, 1.5 m.kr. á ári árin 2007 til 2011.

Árlegur aukinn rekstrarstyrkur vegna reksturs valla félaganna, 1 m.kr. á ári árin 2007 til 2011.

Akureyrarbær veitir félögunum sérstakan stuðning í formi láns án vaxta til fjögurra ára. Lánsfjárhæðin er 10 m.kr. sem skal að öllu leyti varið til að greiða niður skuldir. Fjárhæðin kemur til greiðslu innan mánaðar frá undirritun. Hana ber að endurgreiða með jöfnum greiðslum á árunum 2008 - 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert