Borgin þrýstir á ríkið

Björn Ingi Hrafnsson
Björn Ingi Hrafnsson Brynjar Gauti

Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, segir að með einróma samþykkt borgarráðs í dag, um að Sundabraut verði lögð í göngum frá Gufunesi í Laugarnes, sé borgarráð að hnykkja á því að það standi ekki á borgaryfirvöldum að hefja framkvæmdir. Segir Björn Ingi að með þessu sé borgin að þrýsta á ríkisvaldið um að framkvæmdir hefjist sem fyrst.

Björn Ingi segir það afar ánægjulegt að fulltrúar allra flokka í borgarráði hafi greitt atkvæði með tillögunni en um áréttingu sé að ræða enda sé þessi  afstaða í fullu samræmi við fyrri yfirlýsingar og niðurstöðu samráðshóps um Sundabraut frá árinu 2006.

„Það hefur komið fram í umræðunni undanfarna daga og meðal annars hjá samgönguráðherra í gær að það lægi einhver vafi á hver vilji borgarinnar væri og vildum við taka af öll tvímæli þar um," segir Björn Ingi í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Sannarlega um þrýsting að ræða

Björn Ingi segir það skýrt af hálfu borgarinnar hver vilji hennar er. Aðspurður segir Björn Ingi að borgin sé svo sannarlega að þrýsta á ríkið um að eitthvað fari að gerast í málum Sundabrautar og borgin sé þar einróma með sveitarfélögum á Vesturlandi og í rauninni á Norðurlandi. Sama viðhorf sé uppi hjá eigendum Faxaflóahafna sem um miðja viku samþykktu einróma ályktun þar að lútandi.

„Miðað við umræðurnar á þinginu í gær þá er þingmönnum greinilega líka farið að leiðast biðin þannig að við erum að reyna með öllum hætti að knýja á um þessa framkvæmd sem er löngu tímabær líkt og allir virðast vera sammála um en gengur samt erfiðlega að knýja í gegn," segir Björn Ingi.

Sundabraut er ekki inni á vegaáætlun í ár en Björn Ingi segir að margt þurfi að gerast áður en framkvæmdir við lagningu hefjast. 

„Samgönguráðherra hefur lýst því yfir að það verði að ákveða hvort um einkaframkvæmd verður að ræða, veggjöld, skuggagjöld  eða eitthvað slíkt. Það er ljóst að það er vilji ríkisins að bjóða þetta út. Faxaflóahafnir voru búnar að bjóðast til þess að taka verkið að sér. Þannig að ef það er niðurstaðan þá þarf að bjóða verkið út. Þannig að það eru ótal þættir sem þarf að gera og við höfum einfaldlega bent á það að því lengur sem það er beðið án þess að taka ákvörðun um alla þessa grundvallarþætti þá lengist í að þetta samgöngumannvirki verði að veruleika," segir Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs.

Skýrsla um Sundabraut

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert