Fokker „skoppaði" eftir flugbrautinni

Fokker Flugfélags íslands þurfti frá að hverfa eftir að hafa …
Fokker Flugfélags íslands þurfti frá að hverfa eftir að hafa skoppað eftir flugbrautinni. mbl.is/Þorkell.

Fokkerflugvél sem var í leiguflugi fyrir Flugfélag Íslands á leið frá Akureyri með stóran hóp ungmenna á leið á Íslandsmót á skíðum gerði tvær tilraunir til lendingar í miklu hvassviðri á Ísafirði um miðjan dag í dag en þurfti frá að hverfa. 

Starfmaður flugfélagsins á Ísafjarðarflugvelli sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að það hefði aldrei verið nein hætta á ferðum en það mun hafa verið ákaflega hvasst og að í raun hafi vélin verið lent í seinni atrennunni en vegna hvassviðris tókst flugmanninum ekki að halda vélinni beinni á brautinni og tók því á það ráð að hefja sig til flugs á nýjan leik.

Að sögn sjónarvottar voru ótrúlegar snarpar vindhviður, yfir 40 hnútar sem lyftu vélinni upp í loft eftir að hún var í raun lent svo hún skoppaði nánast eftir flugbrautinni.

Mun hafa reynt mjög á afl vélarinnar í því flugtaki en allt fór vel að lokum og um vélin hafa haldið suður til Reykjavíkur eftir þessar hremmingar. 

Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að flugstjórinn hafi brugðist hárrétt við aðstæðum og unnið samkvæmt eðlilegum vinnureglum. „Hann var kominn með annað hjólið niður en fór síðan aftur í loftið," sagði Árni og tók fram að það hafi aldrei verið nein hætta á ferðum. 

Hópur skíðafólks um borð 

Kári Ellertsson þjálfari Skíðafélags Akureyrar sem var um borð ásamt 25 skíðamönnum á leið á Landsmót á Ísafirði sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að það hefði aldrei gripið um sig neinn ótti um borð og að farþegar hafi fengið mjög greinargóðar upplýsingar bæði frá Flugstjóra og flugfreyju um borð.

 „Hann var kominn með eitt hjól niður í fyrri atrennunni þegar það kemur vindhviða á vélina og hann reif hana upp aftur, þetta gerðist tvisvar sinnum og öllu verra í fyrraskiptið þá var hún alveg að koma öllum hjólum niður þegar að það kemur svona svakaleg vindhviða," sagði Kári.

Akureyrsku skíðamennirnir bíða nú þess að fara með rútu til Ísafjarðar og reikna með að komast á áfangastað eftir miðnætti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert