REI lágmarkar áhættuna án þess að glata tækifærum

Hús Orkuveitu Reykjavíkur.
Hús Orkuveitu Reykjavíkur.

„Reykjavik Energy Invest (REI) var stofnað til að vera í útrás og á meðan fyrirtækið er til þá sinnir það því hlutverki sínu,“ segir Kjartan Magnússon, stjórnarformaður REI, en hann er á ferð um Afríku ásamt Guðmundi Þóroddssyni, forstjóra REI, Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra og föruneyti.

Í samtali við Morgunblaðið segir Kjartan markmið ferðarinnar að ræða við ráðamenn í Jemen, Djíbúti og Eþíópíu þar sem REI sé að skoða samstarf við heimamenn um nýtingu jarðvarma. Forsvarsmenn REI undirrituðu sl. sunnudag viljayfirlýsingu um áframhaldandi viðræður og samstarf milli REI og rafveitunnar í Jemen, en viðræður hafa staðið yfir síðan í september sl. Segir Kjartan stefnt að því að viðræðum verði lokið fyrir ágúst á þessu ári og að þá liggi ljóst fyrir hvort farið verði út í forkönnun á borunum á jarðhitasvæði í Jemen. Aðspurður segir Kjartan ekki ósennilegt að forsvarsmenn REI undirriti samskonar viljayfirlýsingu við ráðamenn í Eþíópíu síðar í vikunni. Að sögn Kjartans eru viðræður hins vegar lengra komnar í Djíbútí, en þar eru menn að skoða möguleika þess að undirrita samning um hagkvæmnisathugun sem felur í sér jarðhitarannsóknir og tilraunaboranir.

Ekki á móti útrásinni

Spurður hvort fyrrgreind útrásaráform REI samræmist hugmyndum sjálfstæðismanna svarar Kjartan því játandi. „Við tókum alltaf fram að við værum ekki á móti útrásinni í sjálfu sér. Það sem skipti máli í henni var að það færu ekki tugmilljarðar króna af almannafé í áhættusamar fjárfestingar víða um heim. Stefna okkar er alveg óbreytt, við erum ekki að fara að taka fé úr OR til að setja í áhættufjárfestingar í þriðja heiminum,“ segir Kjartan og tekur fram að starf núverandi meirihluta miði að því að lágmarka áhættu í þeim verkefnum sem eru fyrir hendi án þess þó að glata verðmætum í einstökum verkefnum.

Kjartan bendir á að þó búið sé að fjárfesta fyrir nokkurn hluta þess 2,6 milljarða kr. hlutafjár sem lagt var inn í REI við stofnun fyrir ári þá sé enn töluvert fé eftir í sjóði. Tekur hann jafnframt fram að þegar og ef mál komist á það stig að hægt sé að byggja virkjanir þá megi ljóst vera að REI ætli sér ekki að fjármagna jarðhitaboranir í löndunum þremur heldur verði leitað til alþjóðlegra fjárfesta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert