Sáttahöndin að þreytast

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/RAX

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sagðist í samtali við blaðamann mbl.is í morgun vera að verða svolítið þreyttur í handleggnum af því að halda útréttri sáttahönd í átt til ríkisstjórnarinnar.

Steingrímur sagðist hann ekki hafa orðið var við það að áhugi væri fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að taka í útrétta sáttahönd stjórnarandstöðunnar og vinna með henni að lausn þess vanda sem nú sé uppi í íslensku efnahagslífi. Hann verði því að líta svo á að þeir sem sitji við stjórnvölinn telji sig einfæra um að ráða við aðstæður. Menn verði að vona það besta en honum hafi þó þótt það litla sem ráðamenn hafi fengist til að segja þjóðinni undir kvöld í gær vera heldur innistæðulaust og vonleysislegt. „Það hljómaði ekki eins og búið væri að stilla saman strengi," sagði hann. 

Steingrímur sagðist hafa veður af því að til standi að kalla fulltrúa stjórnarndstöðunnar á fund með fulltrúum ríkisstjórnarinnar síðar í dag en að það væri ekki hans tilfinning að tilgangur slíks fundar verði að hafa hana með í ráðum heldur bara upplýsa hana um stöðu mála.

Sjálfur telji hann sig þó þokkalega vel inni í því sem verið sé að ræða og hann telji því miður innihald þeirra hugmynda rýrara en hann hefði vonast til. Slíkar upplýsingar hafi hann þó frá bankamönnum, fulltrúum lífeyrissjóða og verkalýðsforystunnar en ekki fulltrúum ríkisstjórnarinnar.

„Það koma þær stundir að maður verður allt að því orðlaus og þetta er ein þeirra stunda," sagði hann. „Ég er því eiginlega bæði orðlaus og þreyttur í handleggnum. Ef ekki væri fyrir það sérstaka ástand sem nú er uppi og það að við teljum okkur bera skylda til að leggja okkar að mörkum, getum við mögulega orðið að liði, væri maður sennilega búinn að draga handlegginn til baka."

Þá sagðist hann finna það í þjóðfélaginu að þjóðin vilji samstillt átak allra aðila til að takast á við vandann enda sé talað um það í herfræðum að stundum komi þeir tímar að ekki sé um annað að ræða en nota allar hleðslur og skjóta af öllum byssum í einu. Að honum læðist sá ónotalegi grunur að slík stund sé nú runnin upp. Að við höfum aðeins eitt tækifæri til að snúa hlutunum til betri vegar.         

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert