Veislan búin á Íslandi

Íslendingar að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur.
Íslendingar að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur.

„Veislan er búin hjá Íslandi, eyjunni sem reyndi að kaupa heiminn." Þannig hefst grein í breska blaðinu Observer í dag. Allir stærstu fjölmiðlar á Bretlandi fjalla um helgina með einhverjum hætti um fjármálakreppuna á Íslandi, flestir í svipuðum dúr, en margir hafa sent blaðamenn hingað til að ræða við Íslendinga um stöðuna.

„Barirnir og veitingahúsin í höfuðborg Íslands eru full, Range Roverar og BMWar standa við göturnar í miðborgarhverfinu 101 og tónlist heyrist frá svörtum lengdum Hummer."  

„Hvað getur maður gert? Þetta eru erfiðir tímar en við höfum talað um þá í allan dag, horft á fréttirnar verða verri og verri. Við urðum að fara út og hitta vinina," hefur blaðið eftir gesti á Kaffibarnum.

I-kynslóðin þarf að óhreinka á sér hendurnar

Blaðið segir að ungt fólk á Íslandi hafi aðeins óljósar minningar um erfiða tíma, áður en efnahagsuppgangurinn hófst sem varð til þess að Ísland varð ríkasta land í heimi miðað við fólksfjölda. Kynslóðin sé stundum nefnd krúttkynslóðin. Hún sé umhverfisverndarsinnuð, áköf en spillt af eftirlæti, hlusti á tónlist Sigur Rósar og Bjarkar.

„Þau þurfa að óhreinka á sér hendurnar nú," segir veitingamaðurinn Siggi Hall við blaðið, sem segir hann vera svar Íslands við breska sjónvarpskokkinum Gordon Ramsey.

„Það er ágætt samt, þau eru I-kynskóðin: iPods, iPhones, allt byrjar á I. En nú þurfum við að hverfa til upprunans aftur. Íslendingar taka áhættu en vinna mikið. Þeir þurfa að skera niður. Við munum þurfa að borða ýsu og lambakjöt og gleyma innfluttri gæsalifur og japanskri sojasósu. Þegar allir voru forríkir á Íslandi - það var í síðasta mánuði - þá áttu þeir peninga sem þeir höfðu ekki unnið fyrir. Núna er forríka fólkið bara venjulega ríkt en því finnst það vera fátækt. Það var dekrað og eyddi milljörðum," segir Siggi.  

Hann er að opna nýtt veitingahús 17. október og segist ekki kvíða gestaskorti. Allir hafi hvort sem er flogið til Kaupmannahafnar þegar þeir vildu borða úti um helgar. Nú verði þeir á Íslandi. „Og allir þurfa að borða," segir hann.

Observer heimsótti einnig bílasöluna Höfðahöllina þar sem lúxusbílar séu til sölu. Húsráðendur þar segjast ekki búast við neinum viðskiptavinum þann daginn. „Fyrir nokkrum árum höfðum við ekki undan eftirspurn eftir dýrum bílum og við byrjuðum að flytja þá inn. Við seldum 120-140 á mánuði. En það breyttist hratt," hefur blaðið eftir Rúnari Ólafssyni.  

Grein Observer 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert