Lagningu stokks undir Geirsgötu og Mýrargötu frestað

Borgarráð hefur að tillögu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, samþykkt að fresta fyrirhuguðum framkvæmdum við byggingu stokks undir Geirsgötu og Mýrargötu. Tillagan var samþykkt einróma á fundi borgarráðs í morgun.

Borgaryfirvöld telja ekki rétt að ráðast í kostnað við svokallaða stokklausn í núverandi efnahagsástandi. Forathugun á byggingu samfells stokks eða jarðganga til að flytja meginstraum umferðar milli Sæbrautar og Ánanausta bendir til að beinn kostnaður við jarðgöng geti numið 11, 5 til 12,5 milljörðum en beinn kostnaður við stokk geti numið um 14 milljörðum króna. Óbeinn kostnaður við þætti eins og niðurrif húsa, færslu lagna, hjáleiðir umferðar á framkvæmdatíma og endurgerð yfirborðsgatna er ekki innifalinn í þeim kostnaði.

Í framhaldi af frestun framkvæmda við stokkinn munu Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir í samstarfi við ÍAV, Portus, Austurhöfn og Vegagerðina hefja undirbúning að bráðabirgðalausn til næstu ára. Bráðabirgðalausnin felur í sér að hannaður verður  tveggja akreina vegur á umræddum kafla. Við hönnun hans verður tekið mið af því að rjúfa ekki tengingu tónlistar og ráðstefnuhúss við miðborgina. Sérfræðingum á skipulags- og byggingarsviði, umhverfis- og samgöngusviði og framkvæmda og eignasviði verður falið að leiða viðræður við hlutaðeigandi aðila um nánari útfærslu þessarar bráðabirgðalausnar.

Þeim verður jafnframt falið að móta tillögur að framtíðarlausn í samstarfi við vegagerðina og samgönguráðuneytið. Í samþykkt borgarráðs kemur fram að þar verði horft til lausna á borð við jarðgangagerðar með tengingu við Örfirisey, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert