Fjárlagafrumvarpið er í frosti

Gunnar Svavarsson.
Gunnar Svavarsson.

„Forsendur fjárlagafrumvarpsins eru að mörgu leyti óljósar miðað við stöðuna í dag,“ segir Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis. Fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu fyrir rúmri viku en gríðarlegar sviptingar hafa orðið í fjármálalífi landsins síðan þá.

Fjárlaganefnd hefur frumvarpið til umfjöllunar og myndi undir eðlilegum kringumstæðum funda allt að því daglega nú um mundir og fá til sín starfsmenn ráðuneytanna til að gera grein fyrir einstökum útgjaldaliðum.

„Meðan fjármálaráðuneytið og önnur ráðuneyti eru á fullu að störfum vegna stöðunnar sem nú er uppi þykir mér einsýnt að við drögum ekki þá krafta sem til eru út úr ráðuneytunum til að eiga viðræður við þingið,“ segir Gunnar og bætir við að nefndin þurfi að fá skýringar á fjölmörgum atriðum í frumvarpinu.

Þingið þarf að móta lögin

Aðspurður hvort fjárlagafrumvarpið sé ekki hreinlega ónýtt plagg segir Gunnar að vitanlega séu forsendurnar óljósar. En verður mögulega lagt fram nýtt frumvarp?

„Ég hef ekki trú á því enda frumvarpið komið í þinglega meðferð,“ segir Gunnar. „Hlutverk þingsins er nú að móta lögin og það bíður nefndarinnar og allra þingmanna gríðarleg vinna við það. Þetta er líklega eitt það stærsta verkefni sem ég hef tekið að mér, þó að þau hafi mörg verið mjög stór,“ bætir Gunnar við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert