Flestum starfsmönnum Bauhaus sagt upp

Verslun Bauhaus á Íslandi
Verslun Bauhaus á Íslandi

Nánast öllum starfsmönnum Bauhaus á Íslandi hefur verið sagt upp störfum en að sögn Halldórs Óskars Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Bauhaus á Íslandi, liggur ekki nákvæmlega fyrir hversu margir munu missa vinnuna. Sautján manns höfðu verið ráðnir í stjórnunarstöður hjá fyrirtækinu en alls sóttu 650 manns um þær stöður.

Til stóð að opna verslun Bauhaus á Íslandi í lok desember en fyrr í mánuðinum var tilkynnt um að opnun verslunarinnar myndi frestast. Halldór segir ekki hægt að setja til um hvenær Bauhaus muni opna verslun á Íslandi enda ómögulegt að segja til um slíkt á meðan efnahagsástandið er eins og það er nú.  „Við erum bara að bíða og sjáum hvernig mál þróast. Þetta er erfið bið en það er ekki einu sinni hægt að flytja inn einn gám vegna erfiðleika á gjaldeyrisviðskiptum," segir Halldór í samtali við mbl.is og bætir við: „Við bara bíðum og sjáum hvernig mál þróast."

Í tilkynningu frá Bauhaus frá því 22. september kom fram að hvorki meira né minna en 650 manns sóttu um helstu stjórnunarstöður hjá fyrirtækinu á Íslandi. „Þessa dagana stendur yfir leit að 150 starfsmönnum til viðbótar og nú þegar hafa rúmlega 1.250 umsóknir borist," sagði í tilkynningu félagsins frá því fyrir tæpum mánuði síðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert