Krefjast 30 þúsund króna taxtahækkunar

Friðrik Tryggvason

Framsýn, stéttarfélag Þingeyinga krefst 30 þúsund króna taxtahækkunar til handa starfsmönnum sveitarfélaga. Kröfugerð Framsýnar var kynnt Launanefnd sveitarfélaga á fundi í dag en núgildandi kjarasamningur rennur út 30. nóvember.

Kröfugerð Framsýnar er í 17 liðum. Auk taxtahækkunar upp á 30 þúsund krónur á mánuði frá 1. desember næskomandi er farið fram á að laun verði leiðrétt til að vega upp á móti verðbólguþróun síðustu mánaða. Í kröfugerðinni er bent á að verðbólga undanfarna 12 mánuði hafi verið 14% og ekki útlit fyrir að hún muni minnka á næstunni. Frekar megi gera ráð fyrir að hún muni hækka verulega. Síðasta kjarasamningsbundna launahækkun starfsmanna sveitarfélaga var 1. janúar síðastliðinn en þá hækkuðu laun um 3%. „Því er ljóst að hér er um verulega kjararýrnun að ræða það sem af er ári,“ segir í kröfugerð Framsýnar.

Félagið vill að samið verði til skamms tíma og ekki lengur en til vors 2009. Í ljósi þeirrar óvissu sem nú er ríkjandi í íslensku efnahagslífi telur Framsýn óskynsamlegt að binda kjarasamninga til lengri tíma.

Í kröfugerðinni er að finna ákvæði um að ráðningartími starfsfólks grunnskóla, s.s. skólaliða, mátráða og stuðningsfulltrúa, verði 12 mánuðir. Fyrrgreindar stéttir búi við þau óþægindi að vera launalaus hluta úr ári þar sem ráðning hefjist um miðjan águst en ljúki um miðjan júní. Þá taki við sumarorlof, 24-30 dagar, en að því loknu taki við launalaust tímabil þar til nýtt skólaár hefjist. 

Framsýn krefst þess einnig að starfstengdu námi á framhaldsskólastigi verði gert hærra udnir höfði, að nám á háskólastigi, umfram kröfur í starfsmati fái aukið jafnvægi og að uppbygging starfsmats verði endurksoðuð.

Þá vill Framsýn að sveitarfélgöin greiði 0,13% mótframlag af launum í endurhæfingarsjóð, líkt og samið hefur verið um við Samtök atvinnulífsins og ríkið. Með því megi fækka verulega í þeim hópi sem fer á varanlegar örorkubætur.

Framsýn er fyrst aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins til að kynna kröfugerð á hendur Launanaefnd sveitarfélaga en fleiri félög hafa gengið frá sinni kröfugerð.

Framsýn ákvað að fara sjálft með samningsumboðið í stað þess að vísa því til Starfsgreinasambandsins. Verkalýðsfélag Þórshafnar hefur líkt og Framsýn ákveðið að framvísa ekki samningsumboði félagsins til Starfsgreinasambands Íslands vegna kjarasamnings Launanefndar sveitarfélaga og Starfsgreinasambandsins. Þess í stað hefur félagið óskað eftir samstarfi við Framsýn um gerð kjarasamnings við sveitarfélögin.

Í dag var einnig gengið frá viðræðuáætlun Framsýnar og Launanefndar sveitarfélaganna og er næsti samningafundur áformaður eftir tvær vikur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert