Farið eftir ráðleggingum Seðlabankans

Árni M Mathiesen.
Árni M Mathiesen.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, segir að farið hafi verið eftir ráðleggingum Seðlabankans á fyrri hluta ársins þegar ljóst var orðið að lausafjárkreppan í alþjóðlega fjármálakerfinu myndi reynast erfið. Þingflokkur Samfylkingarinnar situr nú á fundi og fjallar um ummæli seðlabankastjóra á fundi Viðskiptaráðs í morgun.

Árni sagði við fréttamenn, að Seðlabankinn hefði lagt til að strax yrði farið í að leita eftir gjaldmiðlaskiptasamningum við aðra seðlabanka og síðan yrði leitað eftir frekari lántöku til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn að öðru leyti. Þetta hafi hvortveggja gengið eftir.

Davíð Oddsson sagði í ræðu sinni í morgun, að  fulltrúar Seðlabankans hafi átt fund með alþjóðlegum bankamönnum í Lundúnum í febrúar sl. þar sem niðurstaðan var að íslensku bankarnir hefðu stefnt sér og íslensku fjármálalífi í mikla hættu og jafnvel í hreinar ógöngur, með ábyrgðarlausri framgöngu árin á undan. Nauðsynlegt væri 
að hefjast þegar handa við að vinda ofan af stöðunni svo hún verði
ekki óleysanleg.

Davíð sagði að þetta hefði verið kynnt fyrir stjórnvöldum í kjölfarið og samkvæmt upplýsingum mbl.is sátu þann fund auk Árna, Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra.

Árni vildi ekki tjá sig um þá gagnrýni, sem kom fram á Fjármálaeftirlitið í ræðu Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, í ræðu á fundi Viðskiptaráðs í morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert