Mestu deiluefnin felld úr gildi

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á blaðamannafundi í …
Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á blaðamannafundi í gær. mbl.is/Ómar

Ekki hefur verið tekið saman hversu mikið fjárútlát Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins minnka vegna fyrirhugaðra breytinga á eftirlaunalögunum. Þó kom fram í máli Geirs H. Haarde á blaðamannafundi í gær að það sé umtalsverð upphæð. Frumvarp verður lagt fyrir Alþingi í næstu viku, þar sem umdeildustu ákvæðin verða felld út úr lögum um eftirlaun ráðherra, þingmanna og hæstaréttardómara.

Aðspurð sagðist Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra ekkert vita um það hvort breytingin samræmdist réttlætiskennd fólks almennt, hvort hún myndi eyða óánægjunni með lögin eða ekki. „Kannski verða uppi kröfur um að ganga enn lengra. En þarna er verið að nema úr lögum nánast allt það sem mestum deilum olli. Við erum að breyta öllu því sem deilt var um 2003,“ sagði Ingibjörg.

Samningur við IMF verður að vera á áætlun svo lánin berist

Fleira var rætt á fundinum, svo sem vantrauststillaga á ríkisstjórnina og óskir þingmanna og tveggja ráðherra Samfylkingarinnar um kosningar á næsta ári. Ingibjörg Sólrún sagði ekki líkur á því að þeir þingmenn greiddu vantraustinu atkvæði sitt, heldur væru þeir að enduróma kröfur úr samfélaginu.

Geir sagðist ekki hafa áhyggjur af því að meirihlutinn fengi ekki stuðning í þeirri atkvæðagreiðslu. Hann sagði aðalatriðið í því máli tengjast Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og samkomulagi íslenska ríkisins við hann. „Það hefur verið gert samkomulag við alþjóðlega stofnun. Samkomulagið mun sæta endurskoðun á þriggja mánaða fresti, fyrst núna í febrúar. Það er háð þeirri endurskoðun í febrúar hvort Norðurlandaþjóðirnar og aðrar þjóðir sem vilja lána okkur geri það. Það fer eftir því hvort allt er á áætlun í þessu samkomulagi. Ég tel að það sé mikið hættuspil að gefa til kynna að ekki sé fyrir hendi örugg pólitísk forysta í því sem framundan er,“ sagði Geir.

Pólitískri óreiðu ekki á bætandi

„Við erum búin að ná þarna að landa þessu samkomulagi. Það er mjög vel fylgst með öllu hér,“ bætti hann við og sagði pólitíska óreiðu síst af öllu það sem þyrfti til að bæta ofan á ástandið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert