Ákvarðanafælinn leiðtogi

mbl.is/Ómar

Ríkisstjórnina skortir vilja til samvinnu og foringi hennar, Geir H. Haarde, er haldinn ákvarðanafælni. Þetta sagði Valgerður Sverrisdóttir, formaður Framsóknarflokks, í umræðum um vantraust á ríkisstjórnina á Alþingi í dag.

„Dimma hins kalda vetrar hefur náð yfirhöndinni og ríkisstjórnin hrapað í trausti,“ sagði Valgerður og átaldi Samfylkinguna fyrir að misskilja hlutverk sitt og reyna að berja á samstarfsflokknum. Formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefði sagst ekki bera ábyrgð á mistökum fortíðarinnar en Valgerður spurði hvers vegna ekkert hefði verið gert með þær viðvarnir sem Ingibjörg hefði fengið á a.m.k. sex fundum.

„Hvers vegna tóku formenn ríkisstjórnarflokkanna ekki mark á Seðlabankanum?“spurði Valgerður og velti því upp hvort þau hefðu frekar treyst viðskiptabönkunum en formanni bankastjórnar Seðlabankans. Aldrei væri mikilvægara en nú að samstíga ríkisstjórn færi með völdin. Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar væri ófullnægjandi

Valgerður tók hins vegar undir með Ingibjörgu að ekki hefði farið svona illa hefði Ísland verið aðili að Evrópusambandinu og með evru sem mynt. 

Þá sagði Valgerður nauðsynlegt að leita að nýju umboði þjóðarinnar. Þeir sem þjóðin treysti ættu að koma að uppbyggingu hins Nýja Íslands. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert